Svíþjóðardemókratar, (Sverigedemokraterna SD), eru ótvíræðir sigurvegarar sænsku þingkosninganna í gær en fylgi þeirra rúmlega tvöfaldast milli kosninga, fer úr 5,7% árið 2010 í 12,9% nú, segir Gunnhildur Lily Magnúsdóttir lektor í stjórnmálafræði við háskólann í Malmö í Svíþjóð. Fátt annað var rætt á sænskum samfélagsmiðlum í gærkvöldi og nótt en mikið fylgi við flokkinn sem hefur lagt áherslu á að gera þurfi róttækar breytingar á lögum um hælisleitendur til að fækka þeim. Gert er ráð fyrir að umsóknum um hæli fjölgi í um 80.000 í ár og flokkurinn vill að peningarnir, sem renna í þennan málaflokk, verði notaðir til að bæta velferðarkerfið og auka mannúðaraðstoð í öðrum löndum til að draga úr straumi flóttafólks.
Flokkurinn á rætur að rekja til hreyfinga sem voru bendlaðar við nýnasisma. Nokkrir forystumanna hans hafa verið sakaðir um kynþáttafordóma og einn þeirra sagði af sér eftir að birtar voru myndir af honum með armbindi nasista.
Jimmie Åkesson, leiðtogi flokksins var að vonum glaður er hann ávarpaði stuðningsmenn flokksins í gærkvöldi og segir að aðrir stjórnmálaflokkar, sem hafi látið sem flokkurinn væri ekki til, geti ekki lengur hunsað SD.
<strong>Allt bendir til að næsta ríkisstjórn verði minnihlutastjórn</strong>Formaður Jafnaðarmannaflokksins, Stefan Löfven, hefur lýst því yfir að hann muni reyna að mynda ríkisstjórn en flokkur hans fékk flest atkvæði í kosningunum eða 31,2% atkvæða. Hann útilokar að SD taki þátt í þeim viðræðum og því virðist allt benda til þess að næsta ríkisstjórn Svíþjóðar verði minnihlutastjórn þar sem f
<span>ylgi rauðgrænu flokkanna: Jafnaðarmannaflokksins, Græna flokksins og Vinstriflokksins er 43,7 prósentustig.</span> <span>Borgaraflokkarnir: Hægriflokkurinn (Moderatarna), Frjálslyndi flokkurinn, Miðflokkurinn og Kristilegir demókratar fengu 39,3% atkvæða.</span> <span>Hún segir að það sé löng hefð fyrir minnihlutastjórnum í Svíþjóð og Stefan Löfven geti myndað minnihlutastjórn með stuðningi annarra flokka í ákveðnum málaflokkum.</span><strong>Breið samstaða um að einangra SD á þingi</strong>
Gunnhildur segir að það hafi verið mjög spennandi að fylgjast með kosningunum í gær en um leið hafi niðurstaða þeirra verið áfall. Þetta sé í raun stórsigur SD þar sem þeir bættu við sig mjög miklu fylgi.
Hún segir að það hafi í raun verið blásið upp að kosningarnar hafi snúist um málefni innflytjenda, það sé ekki raunin. Þau þrjú mál sem voru mest til umræðu voru menntamál, heilbrigðiskerfið og atvinnumál.
„Innflytjendapólitíkin blandast auðvitað inn í þetta en hún hefur alls ekki verið á stefnuskrá hjá öðrum flokkum en Svíþjóðardemókrötum,“ segir Gunnhildur og bætir við að það hafi verið breið samstaða hjá öðrum stjórnmálaflokkum að einangra Svíþjóðardemókratana í þessu máli.
Vegur þjóðernisflokka jókst víð mjög síðastliðið vor í Evrópuþingskosningum, svo sem í Bretlandi og Frakklandi. Gunnhildur bendir á að þróunin hafi verið svipuð í Danmörku og Finnlandi en Svíþjóð hafi skorið sig úr vegna þeirrar breiðu samstöðu sem er á meðal annarra stjórnmálaflokka þegar kemur að málefnum flóttamanna og innflytjenda.
„Á þeim fjórum árum sem þeir hafa verið á þingi hafa þeir ekki náð fram neinu varðandi innflytjendamál. Þeir hafa fylgt borgaraflokkunum að málum og má segja að þeir séu hefðbundinn hægriflokkur í öðrum skilningi en í málefnum innflytjenda. Þeir hafa hins vegar ekki notið stuðnings borgaraflokkanna þegar kemur að þeim málum,“ segir Gunnhildur.
<strong>Spurning um hvort grunnskólar verði fluttir til ríkisins á ný</strong>
Menntamálin hafa verið ofarlega á baugi í kosningabaráttunni í Svíþjóð líkt og Gunnhildur bendir á og eitt það fyrsta sem Löfven segir þegar úrslit kosninganna voru ljós var að minnast á slaka stöðu sænskra skólabarna í Pisa-könnuninni.
Það er ein af skýringunum á því að Jafnaðarmannaflokkurinn bætir við sig örlitlu fylgi milli kosninga er sú að almenningur virðist treysta þeim best í menntamálum.
„Skólamálin eru mjög ofarlega á lista og að það eigi að setja aukið fjármagn inn í menntakerfið,“ segir Gunnhildur. Grunnskólarnir eru á hendi sveitarfélaganna í Svíþjóð líkt og á Íslandi en þar er töluvert rætt um þann möguleika að þeir verði settir undir ríkið að nýju. Að minnsta kosti virðist allt benda til þess að aukið fjármagn verði sett inn í menntakerfið, segir hún í samtali við mbl.is í morgun.
Atvinnuleysi er töluvert víða í Svíþjóð, til að mynda á Skáni í Suður-Svíþjóð, þar sem Gunnhildur býr, en þar er atvinnuleysið um 10% hjá vissum aldurshópum.
<strong>Kjör aldraðra meðal baráttumála</strong>
„Þar eru til dæmis Svíþjóðardemókratarnir sterkir og margir virðast vera að senda út einskonar vantrausts yfirlýsingu til ríkjandi flokka með því að kjósa þá nú,“ segir Gunnhildur og nefnir sem dæmi að flokkurinn hafi fengið töluverðan stuðning frá ungu atvinnulausu fólki og þeim sem hafa glímt við langtímaatvinnuleysi.
Einn þriðji þeirra sem kaus Svíþjóðardemókrata nú kaus Hægri flokk (Moderatarna) Frederiks Reinfeldst, fráfarandi forsætisráðherra, árið 2010.
„Þetta fólk er kannski ekki alveg sammála Svíþjóðardemókrötunum þegar kemur að innflytjendamálunum en vill sýna óánægju sína með því að greiða flokknum atkvæði sitt. Stór hluti kjósenda SD eru eldri borgarar en flokkurinn er eini flokkurinn sem hefur haft kjör eldri borgara á stefnuskrá sinni og barist gegn versandi kjörum þeirra. Þetta fólk er að kjósa út frá eigin efnahag ekki hugmyndafræði. Svipað er uppi á teningnum varðandi fólk sem glímir við langtímaatvinnuleysi. Það er að sýna óánægju sína með því að kjósa annað en árið 2010,“ segir Gunnhildur.
Hún segir að það sé meiri hreyfing á kjósendum nú en oft áður. Aukið fylgi Svíþjóðardemókrata hafi ýtt undir umræðu um hvort ekki sé orðið tímabært að horfa út fyrir flokksblokkirnar og sameinast í þeim málaflokkum sem lítið ber á milli flokka, hvort sem þeir tilheyra vinstri eða hægri flokkunum.
Fylgi SD var meira en skoðanakannanir bentu til og segir Gunnhildur að þetta megi meðal annars skýra með því að margir kjósendur flokksins sé í raun ósýnilegur. Það er hópur sem ekki vill gefa upp skoðanir sínar en mætir á kjörstað.
Hún bendir á að kjörsóknin hafi verið meiri í gær en í síðustu þingkosningum og ungir stuðningsmenn Svíþjóðardemókrata hafi skilað sér á kjörstað.
Ungt atvinnulaust fólk sem finnur sér skjól í skoðunum Svíþjóðardemókrötum og vill að Svíþjóð sé fyrir Svía og atvinna þar í landi sé Svía en ekki innflytjendur.
<strong>Einn lélegasti árangur flokksins sögulega séð</strong>
Gunnhildur segir að ekki sé hægt að tala um sigur Jafnaðarmannaflokksins þar sem árangurinn nú sé einn lélegasti árangur flokksins sögulega séð. Hann hafi stefnt á 35% en hafi verið talsvert frá því að ná því markmiði.
„„Það sem skýrir að flokkurinn kemst til valda nú skýrist af slöku gengi Hægri flokksins,“ segir Gunnhildur.
Löfven hefur verið formaður Jafnaðarmannaflokksins frá árinu 2012 og nýtur almenns stuðnings innan flokks síns.
Áður en hann tók við formannsembættinu hafði Jafnaðarmannaflokkurinn átt í erfiðleikum um nokkuð skeið eða eiginlega allt frá árinu 2006 er borgaraflokkarnir komust til valda undir forsæti Fredriks <span>Reinfeldts </span>eftir nánast órofna stjórnarsetu Jafnaðarmannaflokksins frá því fyrir seinni heimstyrjöld.
Göran Persson var forsætisráðherra frá árinu 1996 ttil ársins 2006 og formaður Jafnaðarmannaflokksins frá 1996 til ársins 2007. Þá tók Mona Sahlin við formennskunni og gegndi henni til ársins 2011. Håkan Juholt tók síðan við sem formaður flokksins en gegndi því starfi einungis í tíu mánuði er Löfvan tók við.
<strong>Er með sterkt bakland </strong>
Gunnhildur segir að Löfvan sé með sterkt bakland og nefnir þar Margot Elisabeth Wallström sem gæti komið inn í utanríkismálin þar sem Löfvan þykir skorta þekkingu. Wallström er fyrrverandi ráðherra afnaðarmannaflokksins og varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Wallström, sem var sérlegur fulltrúi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um kynferðislegt ofbeldi í stríðsátökum 2010-2012, hefur snúið aftur í sænsk stjórnmál eftir að hafa starfað á erlendum vettvangi um langt árabil.
<strong>Kemur inn í stjórnmálin í gegnum verkalýðshreyfinguna</strong>
Kjell Sefan Löfven er fæddur 21. júlí 1957 í Stokkhólmi. Hann var tekinn af móður sinni tíu mánaða gamall og var síðar ættleiddur. Hann nam við menntaskólann í Sollefteå og félagsfræði um tíma við háskólann í Umeå en lauk aldrei námi en starfaði í nokkur ár við stáliðnaðinn.
Árið 1981 hóf hann afskipti af verkalýðsmálum og starfaði fyrir samtök starfsmanna í stáliðnaði. Árið 2001 var hann kosinn varaformaður samtaka þeirra og í nóvember 2005 varð hann formaður nýrra samtaka IF Metall, sem eru verkalýðsamtök sem urðu til við sameiningu <span>Industrifacket og </span><span>Metall. </span>
Löfven var kjörinn í stjórn Jafnaðarmannaflokksins árið 2006 og í janúar 2012, í kjölfar afsagnar Juholt, greindi hann frá því að hann hefði áhuga á að leiða flokkinn. Þann 27. janúar 2012 var hann síðan kjörinn formaður og um leið varð hann leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Svíþjóð. Fátt bendir til annars en að hann verði næsti forsætisráðherra Svíþjóðar og leiði flokk sinn í ríkisstjórn eftir átta ára veru í stjórnarandstöðu.