„Við elskum þig Skotland“

Þúsundir komu saman til fundar í Lundúnum í þeim til­gangi að sann­færa skosku þjóðina um að hafna aðskilnaði við Bretland í kosningunum sem fram fara næstkomandi fimmtudag.

Söfnuðust fundargestir saman við hið þekkta Trafalgar-torg og veifuðu þeir breska fánanum og báru skilti með áletrunum á borð við „Verum áfram saman“ og „Við elskum þig Skotland, ekki fara.“

„Ég er heltekin af áhyggjum í ljósi þeirrar stöðu að Skotland kann að kljúfa sig frá Stóra-Bretlandi. Slíkt væri hryllilegur skrípaleikur,“ hefur fréttaveita AFP eftir Shona Milne, en hún var ein þeirra sem mættu á útifundinn við Trafalgar-torg. 

Milne er íbúi í skosku borginni Glasgow og segist hún stolt af því að vera bæði skosk og bresk. „Ég er frávita og veit að milljónir Skota eru í sömu sporum.“ 

Meðal þess sem heyra mátti á fundinum voru þekkt lög á borð við „We are family“ og „Let´s stay together“ en þau voru spiluð í háværum hátalarakerfum.

Samþykki Skotar að segja skilið við Bretland verður lýst yfir stofnun sjálfstæðs ríkis í mars árið 2016. Að sögn skosku heimastjórnarinnar ættu 18 mánuðir að duga til að semja um aðskilnaðinn við stjórnvöld í Lundúnum og byggja upp nýtt stjórn- og hagkerfi í Skotlandi. Sérfræðingar hafa hins vegar, í ljósi 307 ára sambands ríkjanna, efast um að það takist á svo skömmum tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert