Blámálaður á hestbaki

Arnar Eggert segir það koma sér talsvert á óvart að …
Arnar Eggert segir það koma sér talsvert á óvart að ekki sé meiri hiti í sjálfstæðisbaráttu Skota.

„Ég myndi hoppa blámálaður upp á hestinn minn og þeysast niður Princes Street öskrandi á frelsið,“ segir blaðamaðurinn, bókaútgefandinn og poppfræðingurinn Arnar Eggert Thoroddsen kíminn um það ef Skotland hlyti sjálfstæði í kosningunni sem þar fer fram á fimmtudaginn. Arnar, sem búsettur er í Edinborg í Skotlandi, segir spenninginn í borginni vera talsverðan og að fátt annað en kosningarnar sé til umræðu.

„Ef maður stígur inn á kaffihús þá eru allir á öllum borðum að ræða þetta mál. Það er spenna í loftinu en hún gæti samt alveg verið meiri. Þjóðarsálin hérna er bara svo kurteis. Fólk er til að mynda ekki að spyrja hvort annað hvað það muni kjósa. Þú sérð heldur ekki nágranna standa úti á horni að rífast. Menn hafa þó verið að herða sig upp á undanförnum vikum og eru að setja tilheyrandi plaggöt í glugga og hengja á sig barmmerki,“ segir hann.

Hræðsluáróður 

Arnar Eggert segir já-liða vera meira áberandi á meðan nei-liðar séu frekar eldri og íhaldssamari. Hann kveður að ef um lottó væri að ræða, þá myndi hann eflaust veðja á að Skotar hlytu ekki sjálfstæði en að óneitanlega sé mjög mjótt á munum.

„Það er auðvitða massífur hræðsluáróður frá Westminster. Talað er um Skotland sem lítið land á meðan England er með hátt í 60 milljónir á bak við sig. Þegar talað er um ríkjasamband er það tekið fram í sömu andrá að í raun sé um samband stórveldis og smáríkis að ræða. Fjölmiðlarnir í Englandi eru allveg á milljón með þennan hræðsluáróður. Það eru hinsvegar fimm milljónir sem búa hérna, allt að gerast í ferðamennskunni og olíunni, þetta er rík þjóð. Það er því verið að slá svolítið ryki í augun á fólki. Ég verð að viðurkenna það, verandi Íslendingur sem hefur eflaust horft aðeins og oft á Braveheart, að ég hélt að kosning um sjálfstæði væri bara formsatriði,“ segir hann. 

Skelfing í Westminster

Borið hefur á því að þekktir Englendingar séu að stíga fram á sjónarsviðið og lýsa yfir vilja sínum á því að halda Skotlandi innan Bretlands.

„Það er útreiknuð pólitík að fá aðila eins og David Beckham, David Bowie og Paul McCartney til að tjá sig um málið. Því hefur verið hvíslað að Westminster hafi leyft þessa þjóðaratkvæðagreiðslu á sínum tíma af því að þeir voru vissir um að Skotar myndu kjósa gegn sjálfstæði. Síðan kemur allt í einu könnun þar sem það virðist vera sem já-liðar séu að fara fram úr nei-liðum, þá grípur allt í einu um sig mikil skelfing í Westminster. Cameron og Miliband koma hingað upp eins og einhverjir bakkabræður og leggjast nánast á hnén og grátbiðja Skota um að fara ekki úr sambandinu. Þetta er fremur hlægilegt,“ segir Arnar Eggert. Hann kveður ýmislegt liggja að baki því að Bretar vilji ekki missa Skota úr sambandinu. 

„Það eru einhverjir efnahagslegir þættir en líka bara hvernig Bretland lítur út út á við, sérstaklega gegn öðrum öryggisráðsríkjum. Það verður erfitt fyrir Breta að mæta og viðurkenna ósigur sinn í þessu máli. Svo er það líka fordæmið. Ef Skotland gengur út, hverjir ganga þá út næst? Norðurhluti og suðurhluti Bretlands er ólíkur hvað íhaldssemi og annað varðar. Thatcherismi og íhaldssjónarmið eru ekkert rosalega vinsæl hérna norður frá. Það eru meiri skandínavískar áherslur hér en syðra í Englandi í sambandi við velferðarkerfið og annað slíkt,“ segir hann. 

Skiptist eftir borgum

Ýmsir viðburðir hafa verið haldnir til stuðnings báðum hópum en eins og áður segir virðist bera meira á já-liðum.

„Franz Ferdinand, Frightened Rabbit, Amy Macdonald og Mogwai komu meðal annars fram á tónleikum til stuðnings sjálfstæðis Skota. Ég hef ekki heyrt mikið af tónleikum til stuðnings nei-liða,“ segir hann. Skoðanir hvað málið varðar virðist nokkuð mismunandi eftir því um hvaða borgir er verið að ræða en Arnar Eggert segir Edinborg vera nokkuð hliðholla Bretlandi.

„Glasgow og Aberdeen eru mjög skoskar borgir, Edinborgar er meira ensk. Hún er háskólaborg og mikið af Englendingar hér. Hljóðið virðist vera öðruvísi í fólki þegar maður kemur til borga á borð við Aberdeen. Þar er meira af já-liðum,“ segir hann. Hann kveður það jafnframt alltaf koma sér jafn mikið á óvart hversu þögull meirihlutinn sé oft á tíðum. 

„Hvaðan kemur alltaf þessi þögli meirihluti? Maður heyrir ekki beint í þessu fólki en einhverstaðar er það. Það virðist bæði oft vera heima á Íslandi sem og hér í Skotlandi. Gamla fólkið fer auðvitað samviskusamlega á kjörstað og kýs, það er líka oft íhaldsamara. Verkefnið hjá já-liðum er því að fá fólk til að mæta á kjörstað. Það er ekki nóg að öskra „Alba“ og „free Scotland“, þú þarft að mæta á staðinn og kjósa. Það klikkar oft hjá þessu fólki. Það verður því mjög spennandi að sjá hvernig þetta fer,“ segir Arnar Eggert að lokum. 

AFP
Hvað skyldi William Wallace segja núna?
Hvað skyldi William Wallace segja núna?
AFP
Ed Milliband.
Ed Milliband. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert