Fyrstu tölur í Skotlandi liggja fyrir

AFP

Fyrstu tölur í þjóðaratkvæðagreiðslu Skota um þar sem kosið var um hvort Skot­land eigi að verða sjálf­stætt ríki eða vera áfram hluti af breska kon­ung­dæm­inu liggja fyrir. Rúmlega 35 þúsund atkvæði hafa verið talin, 35.386, og segja 53,8% nei en 46,2% já.

Tölurnar koma frá Clackmannanshire en þar eru 39,972 manns á kjörskrá. 88,59% kjörsókn var í bæjarfélaginu. 

Fyrstu tölur benda því til þess að Skotar séu andvígir því að landið verði sjálfstætt ríki. Þó verður að hafa í huga að lítill hluti atkvæða hefur verið talinn og afar mjótt er á mununum. Minnstu kjördæmin verða fyrst til að ljúka talningu. 

Töl­ur úr stærstu bæj­ar­fé­lög­un­um, Glasgow, Ed­in­borg og Aber­deen koma lík­lega ekki fyrr en und­ir morg­un. Um 25% at­kvæðabærra manna búa í þeim þrem­ur borg­um. 

486.219 manns eru á kjörskrá í Glasgow og 378.012 manns í Edinborg.

Hér er hægt fylgjast með umfjöllun breska ríkisútvarpsins um atkvæðagreiðsluna. 

85,34% kjörsókn 

Kjörsókn var 85,34% en sam­tals voru um 4,3 millj­ón­ir manna á kjör­skrá. „Á Skotland að verða sjálfstætt ríki,“ var spurningin sem lögð var fyrir kjósendur. 

1.828 Skotar svöruðu könnun sem gerð var í dag eftir að þeir höfðu kosið. Ekki var um hefðbundna útgönguspá að ræða. 54% sögðu nei við því að landið yrði sjálfstætt ríki en 46% sögðu já. 

Gert er ráð fyrir að Elísabet drottning sendi frá sér skriflega yfirlýsingu á morgun þegar úrslit liggja fyrir. 

Skotland var sjálfstætt konungsríki þar til það gekk í konungssamband við England og Írland árið 1603. Skoska þingið var lagt niður þann 26. mars árið 1707. Llandið formlega sameinað Bretlandi með bresku sambandslögunum þann 1. maí sama ár. Skoska þingið var svo endurreist í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1999. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert