Með sveðju og skotfæri í bílnum

Karlmaður sem braut sér leið inn í Hvíta húsið í Washington sl. föstudagskvöld var með sveðju, tvær handaxir og skotfæri, samtals 800 byssukúlur, í bifreið sinni. 

Þetta segja lögregluyfirvöld í borginni. Maðurinn, sem heitir Omar Gonzalez og er 42 ára, var vopnaður hníf þegar starfsmenn leyniþjónustunnar stöðvuðu hann er Gonzalez var nýkominn inn í bygginguna, að því er segir á vef BBC.

Leyniþjónustan hefur aukið allan viðbúnað vegna málsins og verða allir verkferlar endurskoðaðir. 

Gonzalez er fyrrverandi hermaður sem var heiðraður fyrir störf sína í stríðinu í Írak. Hann á von á því að verða ákærður fyrir að fara inn í lokaða byggingu með ólögmætum hætti með hættulegt vopn í fórum sínum. 

Maðurinn mætti fyrir dómara í dag. Saksóknarar sögðu við réttarhaldið að hann hefði verið stöðvaður en ekki handtekinn í ágúst sl. eftir að hafa fengið fram hjá Hvíta húsinu með sveðju í hönd. 

Saksóknarinn sagði að Gonzalez ógnaði forsetanum og varð dómari við kröfu hans um að Gonzalez myndi sæta gæsluvarðhaldi þar málið yrði næst tekið fyrir í október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert