Ýta einkabílnum úr miðbænum

Umferð um miðborg Madrídar verður frekar takmörkuð í byrjun næsta …
Umferð um miðborg Madrídar verður frekar takmörkuð í byrjun næsta árs. mbl.is/Una

Borgaryfirvöld í Madrid hyggjast loka stóru svæði í hjarta miðborgarinnar fyrir umferð annarra bíla en íbúa þar frá og með byrjun næsta árs. Þá verður alls 352 hektara svæði í miðborginni þar sem takmarkanir verða á bílaumferð.

Eftir breytingarnar mun almenn umferð aðeins vera leyfð um breiðgötur sem liggja í gegnum miðborgina. Þeir sem ætla sér að leggja í einu af þrettán bílastæðahúsum innan svæðisins fá að aka þangað en grannt verður fylgst með því að sú heimild verði ekki misnotuð með fjölda öryggismyndavéla. Sekt liggur við því að brjóta gegn takmörkunum, um það bil fjórtán þúsund krónur. Flutningabifreiðar sem flytja vörur til fyrirtækja á svæðinu fá að aka innan þess á milli klukkan 10-13 á virkum dögum. Leyfilegt verður að aka bifhjólum frá sjö á morgnana til tíu á kvöldin.

Breytingarnar eru í samræmi við samgönguáætlun sem samþykkt var fyrr á þessu ári sem miðar að því að draga jafnt og þétt úr notkun einkabíla í hjarta höfuðborgarinnar. Hún felur meðal annars í sér svonefnda jákvæða mismunun í þágu almenningssamgangna, hjólreiða og gangandi vegfarenda.

Frétt El País á spænsku um lokanirnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert