Fundu forna borg

Angkor Wat, hofið í fornu borginni, er á stærra landsvæði …
Angkor Wat, hofið í fornu borginni, er á stærra landsvæði en Vatíkanið.

Djúpt inn í frumskógum Kambódíu er að finna leifar af miðaldaborg. Þessi forna borg hefur verið falin í aldir en með nýrri tækni hefur hulunni verið svipt af henni. Þar er m.a. að finna hof og breiðstræti. Þetta er ekki fyrsta forna borgin sem finnst í landinu.

Í fréttaskýringu BBC um málið segir að í apríl árið 1858 hafi ungur, franskur landkönnuður,  Henri Mouhot að nafni, siglt frá London til Suðaustur-Asíu. Hann hafi m.a. uppgötvað skordýr í frumskóginum sem enn eru kennd við hann. 

Líklega hefði hann gleymst ef ekki væri fyrir dagbók sem hann hélt og var gefin út árið 1863, tveimur árum eftir að hann lést í Laos, þá aðeins 35 ára gamall.

Dagbókarfærslurnar vöktu athygli, ekki út af skordýrunum heldur vegna bygginga sem hann lýsti. Lýsti hann því þannig að það væri eins og frumskógurinn hefði gleypt hofin en borgin sem hann var að lýsa hét Angkor.

Hann dásamaði byggingarnar og sagði þær líkt og listaverk eftir Michaelangelo. Hann sagði þær meiri en þær sem Grikkir og Rómverjar byggðu.

Byggingarnar eru nú eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna í Kambódíu og sú stærsta Angkor Wat, er talin hafa verið byggð um 1150. Hún er ein og sér enn stærri en Vatíkanið. Fleiri ár tók að finna þessar byggingar á sínum tíma. 

En í fyrra var gerð enn ein uppgötvunin, önnur borg, líklega eldri en Angkor, fannst. Sú er enn lengra inn í frumskóginum.

Borgin fannst er verið var að kortleggja svæði umhverfis Angkor með nýrri leysigeislatækni. Og borgin sem fannst er háþróuð, með vatnsveitukerfi, tjörnum, breiðstrætum og hofum.

Khmerarnir, sem byggðu borgirnar og bjuggu þar, yfirgáfu þær á 15. öld. Talið er að veðurfar, miklar öfgar í rigningum og þurrkum, séu ástæðan. Í kjölfarið var borgin Phnom Penh byggð. Sú er höfuðborg Kambódíu enn þann dag í dag.

Ítarleg fréttaskýring BBC um málið.

Hlið að einu hofi Angkor.
Hlið að einu hofi Angkor. Af Wikipedia
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert