Náttúruhamfarir í S-Frakklandi

Yfirvöld í Frakklandi hafa lýst yfir neyðarástandi vegna náttúruhamfara í um 60 frönskum borgum og bæjum í suðurhluta Frakklands. Bæirnir eru á kafi í kjölfar úrhellisrigningar og er borgin Montpellier þar á meðal.

Vegir og hraðbrautir eru undir vatni eftir að áin Lez fór að flæða yfir bakka sína skammt í héraðinu Languedoc-Roussillon. Úrkomumet hafa verið slegin á svæðinu. 

Franska veðurstofan segir að mæld úrkoma á nokkrum klukkustundum í Montpellier jafngildi meðalúrkomu á sex mánaða tímabili. Um 300 millimetrar féllu í gær og sló það met sem var sett árið 1957.

Ríflega 4.000 manns hafa þurft að leita skjóls í skólum eða miðstöðvum sem hafa verið settar upp fyrir íbúana. Margir sitja sömuleiðis fastir á flugvöllum og á lestarstöðvum. 

Björgunarsveitir voru kallaðar út rúmlega 1.200 sinnum og hafa þrjár þyrlur aðstoðað við björgun. 

Innanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, sagði í dag að gripið hafi verið til ráðstafana í héraðinu vegna náttúruhamfara. Hann mun heimsækja svæðið síðar í dag. 

Búist er við að það muni draga úr úrkomunni í dag. Veðurfræðingar höfðu gefið út rauða viðvörun, sem er efsta stig vegna úrkomu og flóðahættu, en er nú búnir að lækka hana um eitt þrep, eða niður í appelsínugult. 

Ekki hafa borist fréttir af dauðsföllum. 

Svona var staðan í Montpellier í gær líkt og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert