Yfirmaður leyniþjónustunnar segir af sér

Ju­lia Pier­son, fram­kvæmda­stjóri leyniþjón­ustu Banda­ríkj­anna, hefur sagt af sér vegna atviksins sem nýverið átti sér stað við Hvíta húsið þegar vopnaður maður ruddi sér leið inn í hús Bandaríkjaforseta eftir að hafa stokkið yfir öryggisgirðingu sem umlykur bygginguna.

Embættismaður í bandaríska varnarmálaráðuneytinu tilkynnti um afsögn framkvæmdastjórans nú fyrir stundu. Ráðuneytið mun hefja rannsókn vegna atviksins og verða öryggismál Hvíta hússins tekin til skoðunar.

Frá þessu er greint á fréttavef CNN.

Fyrr í vikunni var Pierson kölluð á fund við þingmannanefnd Bandaríkjaþings þar sem henni var gert að greina frá atvikinu og þá einkum hvernig manninum, sem heitir Omar J. Gonza­lez, tókst að komast hjá vörnum Hvíta hússins. Í ávarpi sínu á fundinum sagði Pierson atvikið óásættanlegt og hét hún því að sambærileg tilvik myndu aldrei koma fyrir aftur.

Fulltrúar demókrata og repúblikana sem sæti eiga á þingi sátu fundinn og sóttu þeir hart að framkvæmdastjóranum. Gáfu þeir m.a. sterklega til kynna að hún væri ekki starfi sínu vaxin og að stjórnun stofnunarinnar hafi verið ábótavant allt frá því að Pierson tók við embætti.

Fjölmiðlar vestanhafs segja Pierson hafa staðið sig illa á fundi þingmannanefndarinnar og í kjölfarið fór að bera á auknum þrýstingi um að hún segði af sér.

Ju­lia Pier­son hefur starfað hjá bandarísku leyniþjónustunni undanfarin 30 ár og tók hún við embætti framkvæmdastjóra leyniþjónustunnar í mars á síðasta ári, fyrst kvenna.

Maðurinn sem sigraðist á vörnum Hvíta hússins og ruddi sér leið inn í hús forsetans yfirbugaði leyniþjónustumann við norðurinngang hússins á leið sinni þar inn. Því næst hljóp hann inn í hið svo­kallað aust­ur-her­bergi Hvíta húss­ins áður en hann var loks yf­ir­bugaður þar sem hann reyndi að brjóta sér leið inn í græna-her­bergið. Ekki er vitað hvað honum gekk til.

Frétt mbl.is: „Mun aldrei koma fyrir aftur“

Frétt mbl.is: Ruddist langt inn í Hvíta húsið

Frétt mbl.is: Komst langleiðina í Hvíta húsið

Ju­lia Pier­son, fram­kvæmda­stjóri leyniþjón­ustu Banda­ríkj­anna, hefur sagt af sér.
Ju­lia Pier­son, fram­kvæmda­stjóri leyniþjón­ustu Banda­ríkj­anna, hefur sagt af sér. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert