Ebólulyf berist innan fárra vikna

Marie Paule Kieny fór yfir stöðu mála á blaðamannafundi í …
Marie Paule Kieny fór yfir stöðu mála á blaðamannafundi í Genf í Sviss í dag. AFP

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) segir að innan fárra vikna verði hægt að fá Lyf í Líberíu sem er búið til úr blóði sjúklinga sem hafa læknast af ebólu. Líbería er eitt þriggja ríkja Vestur-Afríku sem hafa orðið verst úti í ebólufaraldrinum.

Dr. Marie Paule Kieny, aðstoðarframkvæmdastjóri heilbrigðismála hjá WHO, sagði í Genf í Sviss í dag, að menn ynnu nú hörðum höndum að því að sjá til þess að lyf og bóluefni yrðu tilbúin í janúar 2015. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Hún segir að samvinna sé í gangi um þróun þessara lyfja og eins og miðað við núverandi stöðu þokist málin hraðast í Líberíu.

Yfir 4.500 hafa látist af völdum ebólu, flestir í Gíneu, Líberíu og í Síerra Leóne.

Enn liggur ekki fyrir hversu mikið magn af lyfjum verði í boði og hvort það sé nóg til að mæta eftirspurn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert