Gekk berserksgang vopnaður keðjusög

Ljósmynd/Örn Óskarsson

Svíi á fimmtugsaldri gekk berserksgang eftir að hafa komist að því að hann fengi ekki að kaupa sumarhús foreldra sinna í Lidköping heldur fengi eldri bróðir hans húsið.

Maðurinn ákvað að taka málið í sínar hendur og vopnaður keðjusög réðst hann til atlögu gegn húsinu, samkvæmt frétt The Local.

Þar kemur fram að skemmdirnar sem hann olli séu metnar á 710 þúsund sænskar krónur, tæpar 12 milljónir íslenskra króna. Maðurinn lét sér ekki nægja að ráðast á húsið því hann felldi 20 tré í garðinum. 

Hann hefur nú verið ákærður fyrir skemmdarverk og þjófnað þar sem hann stal hitara úr húsinu þegar hann réðst til atlögu í janúar sl.

Maðurinn sagðist hafa haldið að hann væri eigandi hússins og því hefði hann mátt skemma það að vild. Eins hefði hann rétt á að fella trén þar sem það hefði verið hann sem gróðursetti þau.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert