Fleiri handteknir vegna slyssins í Moskvu

Rússneska lögreglan hefur handtekið fjóra starfsmenn flugvallarins í Moskvu vegna áreksturs flugvélar og snjóplógs í vikunni. Fjórir fórust í slysinu. Ökumaður snjóplógsins er einnig í haldi lögreglu.

Meðal þeirra sem fórust var forstjóri franska olíufyrirtækisins Total, Christophe de Margerie.

Þeir sem voru handteknir nú eru nemi í flugumferðarstjórn, leiðbeinandi sem bar ábyrgð á flugumferð á flugvellinum þegar slysið varð og yfirmaður flugumferðarstjórnar og þrifa á flugbrautum flugvallarins.

Nefndin sem fer með rannsókn slyssins telur að starfsmenn hafi ekki gætt fyllsta öryggis við flugumsjón. Í dag birti Vnukovo-flugvöllur tilkynningu um að framkvæmdastjóri flugvallarins og aðstoðarmaður hans hefðu sagt af sér vegna slyssins. Yfirstjórn flugvallarins hefur verið ásökuð um saknæma vanrækslu vegna slyssins en fram hefur komið að ökumaður snjóplógsins var drukkinn þegar slysið varð.

Hann kemur fyrir dómara í dag þar sem hann verður væntanlega úrskurðaður í gæsluvarðhald. Hann segist hafa villst og óvart ekið inn á flugbrautina. Allir um borð í flugvélinni, sem var að taka á loft, létust. Hann segist ekki hafa séð flugvélina og neitar því að hafa verið drukkinn en viðurkennir að hafa drukkið líkjör skömmu áður en hann settist undir stýri. Samkvæmt frétt Interfax fannst áfengi í blóði hans.

Fulltrúar frönsku lögreglunnar eru komnir til Moskvu til þess að fylgjast með rannsókninni. 

Segist ekki hafa verið ölvaður

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert