Þrír í lífshættu eftir skotárásina

Sjúkrabílar og lögregla fyrir utan Marysville-Pilchuck menntaskólann eftir skotárásina í …
Sjúkrabílar og lögregla fyrir utan Marysville-Pilchuck menntaskólann eftir skotárásina í dag. AFP

Að minnsta kosti þrír eru í lífshættu eftir skotárás í Marysville-Pilchuck menntaskólanum í Washington-ríki fyrr í dag. Fólkið var fært á Washington ríkissjúkrahúsið með alvarlega áverka, meðal annars á höfði. 

„Fjórir sjúklingar komu á þetta sjúkrahús eftir skotárásina. Þrír þeirra eru enn á sjúkrahúsinu... Þeir þrír slösuðust mjög alvarlega,“ sagði forsvarsmaður sjúkrahússins í samtali við CNN fréttaveituna.

Nem­andi við skólann hóf skotárás fyrr í dag, þar sem að minnsta kosti sjö slösuðust áður en hann framdi sjálfsmorð. Skotárás­in átti sér stað í mat­sal skól­ans samkvæmt AFP frétta­stof­unn­i. Sam­kvæmt heim­ild­um stóð nem­andinn uppi á borði í mat­saln­um þegar hann hleypti skot­um af byssu sinni.

Samkvæmt lögreglunni í Marysville var byssumaðurinn aðeins einn, og hann er látinn.

Skólinn er um 50 kílómetrum norður af Seattle, og um 2.500 nemendur stunda þar nám.

Skotárás í skóla í Washington-ríki

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert