Hæstiréttur sýknar Dolce og Gabbana

Domenico Dolce og Stefano Gabbana.
Domenico Dolce og Stefano Gabbana. AFP

Hæstiréttur Ítalíu hefur sýknað ítölsku fatahönnuðina Domenico Dolce og Stefano Gabbana af ákæru um skattsvik. Þeir höfðu ávallt neitað sök.

Tveir dómstólar á neðra dómstigi höfðu fundið hönnuðina, sem reka tískuhúsið Dolce & Gabbana, seka um athæfið, en þeir voru ákærðir fyrir að hafa gefa upp til skatts tekjur sem námu milljónum evra, en tekjurnar komu í gegnum dótturfélag þeirra í Lúxemborg.

Í apríl sl. voru þeir dæmdir í 20 mánaða skilorðsbundið fangelsi. 

Neðri dómstóll sakfelldi þá í júní 2013 fyrir að skila ekki inn skattskýrslu vegna dótturfélagsins Gado í Lúxemborg, en saksóknarar héldu því fram að hönnuðurnir hafi ætlað sé að komast hjá því að greiða skatta á Ítalíu. 

Málinu er hins vegar lokið þar sem dómur hæstaréttar er endanlegur, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert