Ógni tilveru Egyptalands

Sisi sést hér ræða við fjölmiðla umkringdur hátt settum hershöfðingum.
Sisi sést hér ræða við fjölmiðla umkringdur hátt settum hershöfðingum. AFP

Forseti Egyptalands, Abdul Fattah al-Sisi, segir að hópur íslamista ógni tilveru Egyptalands, en Sisi lét ummælin falla í kjölfar mannskæðra árása sem áttu sér stað á Sínaískaga í gær. Mannfallið var það mesta sem herinn hefur mátt þola í áratugi.

Að minnsta kosti 31 hermaður lét lífið í tveimur árásum í gær. Meirihluti þeirra féll þegar sprengja sprakk skammt frá bænum El-Arish.

Búið er að lýsa yfir neyðarlögum á hluta skagans sem munu gilda í þrjá mánuði. Þá er búið að loka fyrir umferð um Rafah-landamærastöðina sem liggur að Gaza. Þá er búið að lýsa yfir þriggja daga þjóðarsorg, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.

Sisi ávarpaði þjóðina í beinni sjónvarpsútsendingu í dag. Þar sagði hann að „ytri öfl“ stæðu á bak við umfangsmikið samsæri gagnvart Egyptalandi. „Tilgangurinn er að sundra Egyptalandi og egypsku þjóðinnim,“ sagði hann. Sisi bætti við að „Egyptaland berst fyrir tilveru sinni.“

Engin samtök hafa lýst yfir ábyrgð á árásunum, en þær voru gerðar á sama tíma og egypski herinn stendur í hernaðaraðgerðum gagnvart íslamistum á norðurhluta Sínaískaga. 

Búið er að loka fyrir umferð um Rafah-landamærastöðina vegna árásanna.
Búið er að loka fyrir umferð um Rafah-landamærastöðina vegna árásanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert