Flugi frestað um 5 tíma vegna músar

Boeing 787 Draumfari Norwegian.
Boeing 787 Draumfari Norwegian. Ljósmynd/Norwegian

Flugfélagið Norwegian varð að fresta flugi til New York um marga klukkutíma á meðan leitað var að mús í flugstjórnarklefanum.

„Flugmennirnir uppgötvuðu að mús var í klefanum,“ segir talsmaður Norwegian, Charlotte Holmbergh, í samtali við Reuters-fréttastofuna. „Við urðum að ganga úr skugga um að ekki væri búið að naga í sundum víra og annað. Þetta gerist ekki mjög oft en þó kemur þetta fyrir,“ sagði hún um músagang í flugvélum almennt.

Norwegian er eina lággjaldaflugfélagið í Evrópu sem flýgur langar flugleiðir, m.a. til Taílands og Bandaríkjanna. Flugfélagið hefur glímt við ýmsa tæknilega örðugleika með nýju Boeing 787 Dreamliners vélar sínar og mörgum flugum hefur þurft að fresta. Farþegar hafa því orðið strandaglópar í Bangkok og á Flórída. 

En síðustu vikur hefur flest gengið að óskum og flugfélagið náð að halda áætlun. 

Þess má geta að músaveiðarnar báru árangur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert