Tæpur meirihluti Svía vill gerast aðili að Atlantshafsbandalaginu (NATO) samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar ef tekið er mið af þeim sem taka afstöðu með inngöngu í bandalagið og eru andsnúnir því.
Fram kemur í frétt norska dagblaðsins Dagbladet að þannig vilji 37% gerast aðilar að NATO en 36% séu því andvíg. Skoðanakönnunin var gerð af fyrirtækinu Novus fyrir fréttatíma sænsku sjónvarpsstöðvarinnar TV4. Segir í fréttinni að þetta sé í fyrsta sinn sem kannanir fyrirtækisins sýni stuðningsmenn aðildar fleiri en andstæðinga hennar.
Skoðanakönnunin var gerð í kjölfar þess að leit fór fram í sænska skerjagarðinum að óþekktum kafbáti sem talinn var að væri rússneskur. Þá séu enn átök í Úkraínu sem kunni að hafa áhrif á niðurstöðurnar.
Rifjað er upp að skoðanakönnun fyrirtækisins Ipsos frá því í maí hafi sýnt 28% Svía hlynnt inngöngu í NATO en 56% andvíg inngöngu í bandalagið.