Segir Pútín við hestaheilsu

Valdimír Pútín
Valdimír Pútín AFP

Talsmaður forseta Rússlands, Vladimírs Pútíns, segir það algjört bull að Pútín þjáist af krabbameini líkt og einhverjir bandarískir fjölmiðlar hafa haldið fram. Forsetinn sé við hesta heilsu og ekkert ami að honum.

Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns, gagnrýndi slíka fréttamennsku harðlega en í New York Post nýverið var því haldið fram, samkvæmt heimildum, að Pútín væri með krabbamein í brisi. Blaðið hélt því fram að það væri þýskur læknir sem hafi sinnt Pútín sem hefði tjáð blaðamanni þetta. Eins hefði verið talað um að Pútín væri með krabbamein víðar um líkamann.

Pútín, sem er 62 ára hefur hingað til frekar viljað tengja sig við ofurhetju heldur en veikindi en hann hefur verið iðinn við að láta mynda sig við erfiðar aðstæður. 

Í nokkur ár hefur verið orðrómur um að hann væri ekki heill heilsu en engar sönnur færðar um það. Á árinu 2012 ferðaðist Pútín lítt út fyrir landsteinana og hætti meðal annars við ferð til Japans. Heimildir í Japan hermdu að það væri vegna heilsufarsástæðna. Þá upplýsti starfsmannstjóri forsetaembættisins að minniháttar íþróttameiðsl hefðu valdið því að Pútín hefði hætt við ferðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert