Líkamsleifum skolaði á land

AFP

Rúmlega fimmtugur breskur kalmaður hefur verið handtekinn í kjölfar þess að líkamsleifar fundust á strönd eyju í Essex-sýslu á Englandi. Við rannsókn kom í ljós að líkamsleifarnar voru af Angelu Millington sem var 33 ára. Göngufólk gekk fram á þær í júní síðastliðnum.

Fram kemur í frétt Daily Telegraph að sérfræðingar telji að líkamsleifunum hafi skolað á land. Hinn handtekni er grunaður um að hafa myrt Millington. Haft er eftir lögreglu að hún hafi ekki átt fast lögheimili og verið þekkt fyrir að vingast útigangsfólk. Hún sást síðast á lífi 21. nóvember á síðasta ári. Hún tók ennfremur út peninga af bankareikningum sínum þann dag og farsíminn hennar var notaður í síðasta skipti í lok þess mánaðar.

Ekki er vitað hversu lengi líkamsleifarnar höfðu verið á ströndinni þegar þær fundust. Göngufólkið fann upphaflega nokkur mannabein. Fleiri hlutar af beinagrindinni fundust eftir að lögregla hóf leit á ströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert