Hickox hafði betur

Bandarískur héraðsdómari í Maine úrskurðaði í gær að hjúkrunarfræðingurinn Kaci Hickox mætti yfirgefa heimili sitt en yfirvöld í Maine höfu fyrirskipað henni að vera í sóttkví á heimili sínu eftir að hafa snúið heim frá Vestur-Afríku þar sem hún starfaði með ebólusjúklingum.

Samkvæmt dómaranum er Hickox ekki smitandi og því megi hún fara frjáls ferða sinna. Hickox var mjög ósátt við ákvörðun yfirvalda að setja hana í sóttkví en henni var meðal annars bannað að fara í kvikmyndahús eða verslunarmiðstöðvar og gert að halda sig í ákveðinni fjarlægð frá öðru fólki. 

Kaci Hickox segist vera fullkomlega heilbrigð en frá því hún kom til heimalandsins hefur hún reynt að komast undan sóttkvínni sem henni var gert að sæta í þrjár vikur.

Maine ríki ákvað að leita til dómstóla til þess að fá úr því skorið hvort hægt væri að þvinga hana til að halda sig heima en á fimmtudag fór Hickox í hjólatúr með kærastanum í fylgd lögreglu.

Að sögn dómarans hefur Maine ekki tekist að sýna fram á nauðsyn þess að halda Hickox í sóttkví. Hann fyrirskipaði Hickox hins vegar að halda áfram að fylgjast grannt með líkamshita sínum og láta vita um leið og hún finnur fyrir einhverjum einkennum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert