Dani skotinn í Sádi-Arabíu

Frá Riyadh í Sádi-Arabíu.
Frá Riyadh í Sádi-Arabíu. AFP

Danskur ríkisborgari særðist í dag í skotárás í Riyadh, höfuðborg Sádi-Arabíu. Rannsókn málsins stendur yfir en að sögn lögreglu liggur ekki fyrir hvers vegna maðurinn var skotinn. 

Atvikið átti sér stað um kl. 14 að staðartíma (kl. 11 að íslenskum tíma). Lögreglan segir í yfirlýsingu að Daninn hafi verið að aka á brott frá vinnustað sínum í borginni þegar óþekktur maður skaut á hann, en að sögn lögreglu hæfði eitt skot Danann í öxlina. 

Í október sl. var Bandaríkjamaður af sádi-arabískum uppruna skotinn til bana í borginni, en maðurinn var fyrrverandi starfsmaður verktakafyrirtækis. Annar Bandaríkjamaður særðist í árásinni. Árásarmanninum hafði nýverið verið sagt upp að sögn yfirvalda. 

Þetta var fyrsta mannskæða árásin á Vesturlandabúa í Sádi-Arabíu frá því nokkrir létu lífið í bylgju árása sem hryðjuverkasamtökin al-Qaeda stóðu á bak við á milli áranna 2003 og 2009.

Í september sl. hóf Sádi-Arabía ásamt Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Jórdaníu og Barein að gera árásir með Bandaríkjamönnum gegn liðsmönnum Ríkis íslam í Sýrlandi. Margir hafa óttast að það myndi leiða til hefndarverka. 

Danmörk er á meðal þeirra ríkja sem taka þátt í aðgerðunum gegn hryðjuverkasamtökunum. Ástralar, Belgar, Bretar, Frakkar, Hollendingar og Kandamenn taka einnig þátt í hernaðaraðgerðunum. 

Sendiráð Bandaríkjanna í Sádi-Arabíu hefur upplýst bandaríska ríkisborgara um árásina. Í yfirlýsingu sendiráðsins segir að árásin hafi átt sér stað skammt frá IKEA-verslun. Starfsmenn sendiráðsins eru beðnir um að halda sig frá svæðinu á næstunni. 

© 1994-2014 Agence France-Presse

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert