Hús hrundu í jarðskjálfta í Japan

Fulltrúi frá Veðurstofu Japans sýnir hvar upptök skjálftans voru.
Fulltrúi frá Veðurstofu Japans sýnir hvar upptök skjálftans voru. AFP

Skjálfti af stærðinni 6,2 varð í Japan í kvöld, en hann varð til þess að hús hrundu og hafa a.m.k. tuttugu slasast, þar af þrír alvarlega. Fyrr í dag varð stór skjálfti í Kína þar sem ein kona lést, en skjálftinn í Japan olli meira eignatjóni en sá í Kína. 

Skjálftinn í Japan varð kl. 22.08 að þarlendum tíma (kl. 13.08 að íslenskum tíma) og átti hann upptök sín á tíu kílómetra dýpi nálægt Nagano í Norðvestur-Japan.

Myndir frá Japan bera vitni um töluverða eyðileggingu, sérstaklega á timburhúsum, auk þess sem aurskriður, sem fallið hafa sem afleiðing jarðskjálftans, hafa lokað vegum víða í landinu. 

Sérfræðingar segja skjálftann óvenjustóran fyrir þetta svæði, en ekki er þó búið að gefa út flóðbylgjuviðvörun. Mesta hættan af skjálftanum er talin vera jarðskrið og hrun húsa. Enginn er þó talinn af enn sem komið er. Alls sat 21 fastur í húsarústum en tekist hefur að koma þeim til bjargar. Þá varð rafmangslaust hjá um 1.600 manns.  

Um 20 eftirskjálftar hafa komið nú í kjölfar stóra skjálftans. Hafa sérfræðingar varað við því að einn stór eftirskjálfti kunni að koma, mögulega í næstu viku.

Skjálftinn í dag hafði engin áhrif á kjarnorkuver landsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert