„Æviráðni borgarstjórinn“ látinn

Marion Barry var umdeildur en naut stuðnings meðal þeldökkra og …
Marion Barry var umdeildur en naut stuðnings meðal þeldökkra og fátækra íbúar Washington. AFP

Marion Barry, fyrrverandi borgarstjóri Washington í Bandaríkjunum, er látinn 78 ára að aldri. Barry, sem var demókrati, sat alls fjögur kjörtímabil sem borgarstjóri. Hann var afar umdeildur og náði endurkjöri þrátt fyrir að hafa verið handtekinn og dæmdur í tengslum við fíkniefnamál.

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, handtók hann í tengslum við rannsókn á fíkniefnamáli og árið 1990 var hann ákærður og fór málið fyrir dómstóla. Hann var hins vegar aðeins sakfelldur fyrir að hafa haft fíkniefni í vörslu sinni. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Barry naut mikilla vinsælda meðal fátækra og þeldökkra kjósenda. Hann var borgarstjóri frá 1979 til 1991 en þá lét hann af embætti vegna vandamála í einkalífi. Hann náði hins vegar endurkjöri og þjónaði aftur sem borgarstjóri frá 1995 til 1999.

Barry lést í nótt á sjúkrahúsi í Washington að sögn talskonu hans. Dánarorsök hefur ekki verið gefin upp, en vitað er að hann glímdi við nýrnasjúkdóm sem rekja má til sykursýki og hás blóðþrýstings. 

Barry var handtekinn eftir að FBI hafði myndað borgarstjórann reykja krakk á hótelherbergi með vinkonu sinni árið 1990.

Hann var á endanum dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir vörslu fíkniefna. 

Barry fæddist árið 1936 í Mississippi. Hann barðist fyrir borgaralegum réttindum í Washington á sjöunda áratugnum og árið 1974 var hann fyrst kjörin í borgarstjórn.

Hann var mjög valdamikill og áberandi í stjórnmálum höfuðborgarinnar í aldarfjórðung, en hann var stundum kallaður „æviráðni borgarstjórinn“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert