Óhreinu börnin hans Larry Page

Vegna mistaka við yfirfærslu blaðsíðu á stafrænt form birtist þessi …
Vegna mistaka við yfirfærslu blaðsíðu á stafrænt form birtist þessi hönd eins erlenda starfsmannsins á einni síðunni, flettifingurinn varinn með hlustri. Til er sérstakur vefur, http://theartofgooglebooks.tumblr.com, um mistök í bókum Google.

Hefðbundin pappírsbók er úrelt og bráðum getum við lesið allar bækur heimsins á tölvuskjá. Ekki er víst að dyggir bókavinir skrifi allir undir þessa draumsýn, mörgum finnst snertingin við áþreifanlegu bókina vera nauðsynlegur hluti af því að njóta hennar. En hjá risafyrirtækinu Google byrjuðu menn að koma rituðu máli á stafrænt form, skanna inn gamlar bækur sem ekki voru þegar til á stafrænu formi, fyrir mörgum árum og þegar eru yfir 30 milljón titlar í höfn.

Stórkostleg hátækni, hugkvæmni tölvusnillinganna og gervigreind búnaðarins eða hvað? Þegar skoðuð eru ýmis ummæli Larry Page og annarra liðsmanna Google skyldi maður ætla það. Undrabörnin í Kísildal í Kaliforníu eru meira fyrir að nota hástemmd lýsingarorð en upplýsa okkur neytendur um ýmis atriði upplýsingabyltingarnnar sem ekki þykja jafn heillandi. Jarðbundin mál eins og kjör þeirra sem lélegust hafa launin hjá risanum.

Talið er að til séu um 130 milljón bækur í heiminum öllum. Stafrænar bækur verða ekki til af sjálfu sér, detta ekki af himnum ofan. Notuð er tiltölulega einföld ljósmyndatækni við að gera textann stafrænan, þúsund blaðsíður á klukkustund. Heill hulduher útlendra verkamanna sér um að fletta hverri einustu bók spjaldanna á milli svo að hægt sé að mynda hverja síðu.

Hulduher vegna þess að langflest er þetta fólk eins og ósýnilegt, er á verktakasamningi sem hægt er að segja upp fyrirvaralaust. Stundum verða mistök, blaðsíðan er á hvolfi, og stöku sinnum verður fólkið óvart sýnilegra, a.m.k. hönd eða fingur.

Andrew Norman Wilson er grafískur hönnuður sem var um hríð verktaki í aðalstöðvum Google í Kaliforníu. En hann var rekinn 2007 fyrir að eiga samskipti við annan hóp, fólk sem mætti kl. 4 á morgni og hélt aftur heim kl. 14. Það vann fyrir vinnuteymi Google sem nefnist ScanOps. Wilson hefur gert vídeómynd um þessa reynslu sína.

„Þeim var markvisst haldið aðgreindum. Þau báru gult spjald sem takmarkaði aðgang að öllum byggingum á svæðinu að þeirra eigin undanskilinni,“ segir Wilson.

Flestir voru blökkumenn eða ættaðir frá löndum Rómönsku Ameríku, útlendingar með tímabundið atvinnuleyfi. Konur voru í meirihluta. Annað starfsfólk Google er oftast úr röðum hvítra Bandaríkjamanna og langoftast karlar sé um vellaunaðar ábyrgðarstöður að ræða.

Wilson fylgdist lengi með fólkinu og að lokum stóðst hann ekki mátið, reyndi að taka viðtöl við nokkra. Nokkrum mínútum síðar stöðvuðu öryggisverðir hann og Wilson var fljótlega rekinn.

Gömul þjóðsaga segir að Eva hafi falið óhreinu börnin þegar Guð kom í heimsókn, hún skammaðist sín fyrir þau, vildi að þau væru ósýnileg. En Guð gerði þau að álfum sem eru okkur (flestum) ósýnilegir. Page og félagar eru ekkert að hampa sínum óhreinu börnum frekar en Eva. Ímyndarsérfræðingar Google hafa líklega sagt þeim að heppilegast væri að auglýsa þetta vinnuafl sem minnst.

Leiðindapuð

Er þetta siðlaust athæfi, arðrán, verið að níðast á varnarlausu fólki, meira eða minna réttlausum útlendingum? Talið er að yfir hálf milljón manna um allan heim vinni nú alls kyns vestræn tæknistörf sem ekki krefjast yfirburðaþekkingar, oft í fjarvinnu. Þetta er strit, leiðindapuð sem flestir ráða við. Margir kannast við símsvörun vestrænna fyrirtækja sem oft hefur verið „úthýst“ til Indlands. Og í Bandaríkjunum vinna nú vel yfir hundrað þúsund útlendingar með sérstaka, tímabundna vegabréfsáritun, H-1B, hafa atvinnuleyfi í svonefndu smáforritahagkerfi hjá Google, Uber eða álíka fyrirtækjum.

Í augum Google er það mikill kostur að um er að ræða fólk sem ekki er í neinu stéttarfélagi, hefur að nafninu til stöðu verktaka sem gerir frjálsan samning við verkkaupandann Google. Fyrirtækið þarf ekki að greiða nein launatengd gjöld, er ábyrgðarlaust og vinnuaflið afar sveigjanlegt. Og hlýðið.

En bent er á að Google er vellauðugt risafyrirtæki sem ætti að hafa efni á að gera betur við starfsmenn sína. Og ef ráðamönnum þess finnst þetta allt í góðu lagi ætti ekki að þurfa að læðupokast með ódýra vinnuaflið eða hvað? Athyglisvert er að þrátt fyrir ítarlega leit (á Google) fannst ekki eitt dæmi um að Larry Page færi vinsamlegum orð um útlendingana fórnfúsu og framlag þeirra. Í hans augum eru þeir kannski ekki til.

Stórfyrirtæki reyna ávallt að lækka útgjöldin, laun og annað. Sú saga er eilíf og endalaus. Horfi nú hver í eigin barm, sjálf reynum við að kaupa vöru og þjónustu á eins lágu verði og við getum. Og einhverjir myndu segja að ef þessum „ánauðugu þjónum“ Google væri meinað að þræla á sultarkjörum myndi fyrirtækið ráða innfædda Bandaríkjamenn á hærri launum. Útlendingarnir fengju sennilega mun verri vinnu í heimalöndunum. En varla afsakar það að risafyrirtæki notfæri sér varnarleysi fátæklinga - bak við tjöldin.
Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.
Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert