Plantekrueigandi tekinn af lífi

Indversk plantekra. Mynd úr safni.
Indversk plantekra. Mynd úr safni. AFP

Eigandi plantekru í austurhluta Indlands hefur verið myrtur í kjölfar launadeilu. Æstur múgur réðist á manninn með eggvopnum og tók hann af lífi án dóms og laga. 

<br/><br/>

Lögreglan segir að Rajesh Jhunjhunwala, sem var 45 ára, hafi verið eigandi Sonali-plantekrunnar, þar sem te er ræktað, í Jalpaiguri-héraði í Vestur-Bengal ríki. Reiðir starfsmenn drógu hann út af samningafundi í dag og myrtu hann.

Málið tengist launadeilu að sögn lögreglu sem leitar nú að árásarmönnunum sem flýðu af vettvangi.

Lögreglan segir að Jhunjhunwala hafi mætt á svæðið í síðustu viku til að ná sáttum í deilunni, en hann var búsettur annars staðar. Lögreglan segir ennfremur að svo virðist sem starfsmennirnir hafi ekki viljað sætta sig við þau laun sem þeim hafi verið greidd sl. tvo til þrjá mánuði. 

AFP-fréttaveitan segir alþekkt að fólk sem starfi á indverskum plantekrum fái mjög lág laun auk þess sem það hafist við í lélegu húsnæði á afskekktum svæðum. Starfsmennirnir njóta sömuleiðis ekki verndar lögreglu, búa við kröpp kjör og njóta ekki réttinda sem tryggja þeim m.a. aðgengi að heilsugæslu eða öruggt vinnuumhverfi. 

Á síðasta ári myrtu starfsmenn á annarri ekru í Assam-ríki yfirmann sinn og eiginkonu hans, auk þess sem þeir kveiktu í húsinu hans. Málið tengdist einnig kjaradeilu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert