Kjarnorkuviðræðum slegið á frest

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti um að viðræðurnar yrðu framlengdar …
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti um að viðræðurnar yrðu framlengdar fram í júlí. AFP

Ákveðið hefur verið að framlengja frest sem Íranar og heimsveldin höfðu sett sér til að ná samkomulagi um kjarnorkuáætlun þeirra fyrrnefndu um sjö mánuði. Fresturinn, sem áður hefur verið framlengdur, átti að renna út í kvöld en samkomulag náðist ekki þrátt fyrir stífar viðræður í Vín síðustu daga.

Fastaþjóðirnar fimm í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna auk Þjóðverja hafa undanfarið rætt við Írana með það að markmiði að ná samkomulagi um kjarnorkuáætlunin sem Íranar segja að sé ætlað að tryggja landsmönnum orku til framtíðar. Nú er stefnan að ná grunnsamkomulagi fyrir mars og að skrifa undir fullgildan samning fyrir 1. júlí.

„Þessar viðræður verða ekki skyndilegra auðveldari bara af því að við framlengjum þær. Þær eru snúnar. Þær hafa verið erfiðar og þær verða það áfram. Á síðustu dögum í Vín höfum við hins vegar náð raunverulegum og áþreifanlegum árangri og við höfum séð nýjar hugmyndir koma upp á yfirborðið. Þess vegna ætlum við í sameiningu að framlengja þessar viðræður um sjö mánuði,“ sagði John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna þegar ljóst var að samkomulag næðist ekki í bili.

Hassan Rouhani, forseti Írans, sagði að samkomulag myndi nást þrátt fyrir að það hafi ekki náðst áður en fresturinn í dag rann út.

„Leið samningaviðræðna mun leiða til lokasamkomulags. Flestar hindranirnar hafa verið fjarlægðar,“ sagði Rouhani í íranska ríkissjónvarpinu um þá ásteytingasteina sem hafa hingað til komið í veg fyrir að bráðabirgðasamkomulag sem gert var yrði að varanlegum samningi.

Bráðabirgðasamkomulagið fól m.a. í sér að hluta refsiaðgerða gegn Íran var aflétt, gegn því að Íranir heimiluðu eftirlit alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar á stöðum þar sem kjarnorkutengd starfsemi fer fram.

Farið í framlengingu?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert