Spænsk búsáhaldabylting með mest fylgi

Pablo Iglesias, leiðtogi Podemos, þegar hann var kjörinn á þingi …
Pablo Iglesias, leiðtogi Podemos, þegar hann var kjörinn á þingi flokksmanna fyrr í þessum mánuði. AFP

Nýr vinstriflokkur sem spratt upp vegna óánægju með gömlu flokkana mælist nú með meiri stuðning en tveir stærstu flokkar Spánar í skoðanakönnun dagblaðsins El Mundo. Rúmlega fjórðungur aðspurðra segist myndu kjósa flokkinn í þingkosningum sem fara fram á næsta ári. Flokkurinn varð til upp úr nokkurs konar spænskri búsáhaldabyltingu.

Flokkurinn nefnist Podemos,  „Við getum“, og var stofnaður í janúar á grunni hreyfingar sem myndaðist í kringum fjöldamótmæli „hinna grömu“ í kjölfar heimskreppunnar. Í könnun spænska blaðsins segjast 28,6% aðspurða ætla að kjósa flokkinn.

Til samanburðar segjast 26,3% að kjósa Lýðflokkinn, núverandi stjórnarflokk Spánar, og 20,3% sósíalista. Þessir tveir flokkar hafa verið stærstu tveir flokkarnir á Spáni frá því að lýðræði var endurreist á 8. áratug síðustu aldar.

Spánverjar hafa gengið í gegnum efnahagsþrengingar undanfarin sex ár og er atvinnuleysi í landinu enn um 24%. Pólitísk hneyksli hafa ennfremur reynt á þolrif almennings gagnvart gömlu flokkunum. Hinir grömu fylktust út á götur og torg árið 2011 til að lýsa yfir reiði sinni í garð stjórnmálanna. 

Leiðtogi Podemos er hinn 36 ára gamli Pablo Iglesias. Flokkurinn heitir því að berjast gegn spillingu, innleiða 35 stunda vinnuviku og að mikilvægir hlutar efnahagslífsins verði á hendi hins opinbera. Fékk flokkurinn öllum að óvörum rétt tæp 8% atkvæða Spánverja til Evrópuþingsins í maí og hlaut fimm sæti.

Iglesias mælist einnig vinsælasti stjórnmálaleiðtogi landsins, með naumt forskot á Mariano Rajoy, forsætisráðherra Lýðflokksins, og Pedro Sánchez, leiðtoga sósíalista. Yrðu úrslit þingkosninganna á næsta ári í samræmi við könnunina þyrftu flokkarnir að mynda samsteypustjórn, annað hvort Podemos og sósíalista eða hinna fornu fjenda lýðflokksmanna og sósíalista.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert