Mikill viðbúnaður í Ferguson

Ríkisstjórinn í Missouri hefur sent hundraða manna varalið til bæjarins Ferguson til að koma í veg fyrir að mótmæli leysist upp í ofbeldi og gripdeildum eins og í gær. Alls verða um 2.200 þjóðvarðliðar á svæðinu til að hafa gætur á mótmælendum.

Tugir manna voru handteknir í gær eftir að mótmæli gegn þeirri ákvörðun kviðdóms að ákæra ekki lögreglumanninn Darren Wilson sem skaut hinn 18 ára gamla Michael Brown til bana í ágúst enduðu með því að kveikt var í byggingum og mótmælendur létu greipar sópa í fyrirtækjum á St. Louis-svæðinu. Ferguson er úthverfi borgarinnar.

Jay Nixon, ríkisstjóri í Missouri, segir að þjóðvarðliðar hafi ekki verið sendir nógu fljótt á staðinn í gær til þess að tryggja að mótmælin færu ekki úr böndunum. Fjöldi þeirra hefur því verið þrefaldaður frá því í gær.

Mikil reiði hefur gripið um sig vegna málsins í Bandaríkjunum og hafa umræður blossað upp á ný um stöðu blökkumanna í bandarísku samfélagi. Mótmæli hafa farið fram í borgum um allt landið í dag sem þúsundir manna hafa tekið þátt í.

Lögreglumenn loka götu í St. Louis eftir mótmæli gærdagsins.
Lögreglumenn loka götu í St. Louis eftir mótmæli gærdagsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert