Vill að Bretar gerist aðilar að EES

Owen Paterson, þingmaður breska Íhaldsflokksins.
Owen Paterson, þingmaður breska Íhaldsflokksins. Wikipedia

Breski þingmaðurinn Owen Paterson, sem lét af embætti ráðherra umhverfisráðherra Bretlands fyrr á árinu, vill að Bretar yfirgefi Evrópusambandið og gerist þess í stað einungis aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) með sama hætti og Noregur, Ísland og Liechtenstein.

Þetta kemur fram í viðtali sem breska ríkisútvarpið BBC tók við ráðherrann fyrrverandi. Paterson sagði að Bretar hafi talið áratugum saman að þeir hafi gerst aðilar að bandalagi sem snerist um efnahagsmál en þegar horft væri til sögu ESB kæmi í ljós að eðli þess hafi alltaf verið pólitískt. Sambandið væri á þeirri leið að verða að einu ríki og Bretar gætu aldrei orðið hluti af því. Fyrir vikið væru Bretar í raun ekki að yfirgefa ESB heldur hefði sambandið yfirgefið þá.

Paterson sagði aðild að EES tryggja aðgang Breta að innri markaði ESB og að innan þess myndu þeir hafa sterka stöðu. Viðtalið í heild má sjá hér að neðan. Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarin ár í Bretlandi um tengsl landsins við sambandið og hefur fylgi við Breska sjálfstæðisflokkinn (UKIP) aukist mjög en flokkurinn vill að Bretar segi skilið við það. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur heitið þjóðaratkvæði um veruna í ESB 2017 sigri flokkur hans, Íhaldsflokkurinn, þingkosningarnar sem fram fara næsta vor. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka