Fórnarlamb eða glæpamaður?

Saksóknarar halda því fram að stúlkan hafi eitrað fyrir eiginmanni …
Saksóknarar halda því fram að stúlkan hafi eitrað fyrir eiginmanni sínum með rottueitri. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Réttarhöld  yfir fjórtán ára stúlku, sem ákærð er fyrir að hafa myrt 35 ára gamlan eiginmann sinn hófst í dag. Aðalvitni í málinu er annað barn sem stúlkan á að hafa sent til þess að kaupa morðvopnið, en það var rottueitur.

Stúlkan heitir Wasila Tasi'u og kemur úr fátækri sveitafjölskyldu í norður Nígeríu. Ef hún verður dæmd sek gæti hún verið tekin af lífi. 

Málið hefur reitt mannréttinda- og aðgerðarsinna til reiði sem segja að stúlka sem er gift manni rúmlega tvisvar sinnum eldri en hún sé fórnarlamb, ekki glæpamaður. 

Fyrsta vitni saksóknara í málinu var sjö ára stúlka, kölluð Hamziyya. Hún bjó í sama húsi og Tasi'u og eiginmaður hennar Umar Sani er stúlkan setti rottueitur í mat hans. 

Hamziyya er sögð vera systir annarrar eiginkonu Sani en fjölkvæni er algengt á svæðinu.

Hún sagði að Tasi'u hafi gefið henni pening til þess að kaupa handa sér rottueitur þann 5. apríl, sama dag og eiginmaðurinn lést.

„Hún sagði að rotturnar væru að trufla hana í herberginu sínu,“ sagði hún við réttarhöldin. 

Tasi'u hefur alltaf lýst yfir sakleysi sínu. 

Önnur vitni í dag voru sölumaðurinn sem seldi Hamziyya eitrið og nágranni hjónanna. Hann sagði að honum hafi verið boðið matur sem eiginkonan unga hafi framreitt fyrir mann sinn. 

„Þegar hann færði mér matinn tók ég eftir einhverju svörtu í honum, eins og sandi,“ sagði hann í dag. 

Hann borðaði smá hluta af matnum en fannst bragðið undarlegt. Umar hélt þó áfram að borða. 

Þrír sem borðuðu sama mat létust skyndilega og eru því saksóknarar á því að Tasiu hafi myrt fjóra með eitraða matnum. 

Ekki er talið að unglingur hafi síðast verið tekinn af lífi í Nígeríu árið 1997. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert