101 greiddi atkvæði með vantrausti

Þingmenn héldu mótmælaspjöldum á lofti rétt áður en atkvæðagreiðsla um …
Þingmenn héldu mótmælaspjöldum á lofti rétt áður en atkvæðagreiðsla um vantrauststillöguna fór fram. AFP

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, stóð af sér vantrauststillögu á Evrópuþinginu í Strassborg í dag, sem evróskeptískir hópar lögðu fram gegn framkvæmdastjórninni.

Alls greiddu 101 Evrópuþingmaður atkvæði með tillögunni, 461 á móti en 88 sátu hjá.

Vantrauststillagan var lögð fram vegna rannsóknarblaðamennsku sem leiddi í ljós að stjórnvöld í Lúxemborg veittu fjölda alþjóðlegra fyrirtækja, þ. á m. Apple, Pepsi, Ikea og Heinz, skattaívilnanir í stjórnartíð Junckers, sem er fyrrverandi forsætisráðherra smáríkisins.

Juncker hefur staðfastlega neitað því að hafa gert nokkuð rangt.

Einn hópur þingmanna á Evrópuþinginu hélt uppi rauðum flöggum fyrir atkvæðgreiðsluna sem á var letrað: Engin skattaskjól, en fékk fyrirmæli um að láta þau hverfa.

Vantrauststillagan var lögð fram af þingmönnum Breska sjálfstæðisflokksins, Ukip, og Fimm stjörnu-hreyfingu ítalska grínistans Beppe Grillo, og naut stuðnings öfgahægriflokks Marine Le Pen.

Litlar líkur voru á því að tillagan yrði samþykkt, þar sem stórir flokkar á Evrópuþinginu höfðu þegar lýst yfir andstöðu við hana. Hún dró þó aðeins úr ljómanum af 315 milljarða evra fjárfestingaráætlun Junckers, sem kynnt var á miðvikudag.

Þá eru aðeins tveir dagar liðnir frá því að Frans páfi sagði að evrópski draumurinn væri að kafna í skriffinskulegum formsatriðum.

Gagnrýnendur segja Juncker of mikinn innanbúðarmann í Brussel til að geta endurvakið trú skeptískra evrópskra kjósenda, sem hafa leitað lausna í faðmi flokka á borð við Ukip.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert