Vinstrimenn berjast um völdin

Frá Upernavik, bæ með tæplega 1.200 íbúa á norðvesturströnd Grænlands. …
Frá Upernavik, bæ með tæplega 1.200 íbúa á norðvesturströnd Grænlands. Þingkosningar fara fram á Grænlandi á föstudaginn kemur mbl.is/RAX

Efnahagsmálin hafa verið í brennidepli í baráttunni fyrir þingkosningarnar á Grænlandi á morgun, föstudag, frekar en deilan um hvort Grænlendingar eigi að stofna sjálfstætt ríki.

Vinstriflokkar hafa verið mjög öflugir á Grænlandi og skoðanakannanir benda til þess að þeir fjórir flokkar sem eru lengst til vinstri fái um það bil 85% atkvæðanna.

Grænlenskar fylgiskannanir hafa ekki verið mjög áreiðanlegar, en þær benda til þess að vinstriflokkurinn Inuit Ataqatigiit (IA) sé með naumt forskot á jafnaðarmannaflokkinn Siumut en þurfi að mynda stjórn með einum eða tveimur öðrum flokkum til að tryggja meirihluta á landsþinginu. Þriðja vinstriflokknum, Partii Naleraq, er spáð um 10% fylgi og talið er hann geti komist í oddastöðu á þinginu og ráðið úrslitum um hvort IA eða Siumut myndi næstu landstjórn. Flokkurinn var stofnaður í janúar og er undir forystu Hans Enoksen, sem var leiðtogi Siumut og formaður landstjórnarinnar á árunum 2001 til 2009.

Siumut-flokkurinn var við völd á Grænlandi í 30 ár samfleytt frá árinu 1979, þegar landið fékk sjálfstjórn í eigin málum, og þar til hann tapaði í kosningum í júní 2009 þegar IA komst til valda. Hann var einn við völd á árunum 1979 til 1983 en eftir það í stjórn með einum eða tveimur öðrum flokkum þar til hann beið afhroð í kosningunum fyrir fimm árum. Aleqa Hammond varð þá formaður Siumut og flokkurinn komst síðan aftur til valda eftir mikinn kosningasigur í mars á síðasta ári. Landstjórnin sprakk í byrjun október vegna ásakana um að Hammond hefði notað rúmar 106.000 danskar krónur (2,2 milljónir íslenskra) af opinberu fé í eigin þágu.

Háðir Dönum í fyrirsjáanlegri framtíð

IA er systurflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á Íslandi og hyggst m.a. efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort banna eigi vinnslu á úrani. Leiðtogi flokksins, Sara Olsvig, segist ætla að hafna fyrirhugaðri úranvinnslu á Suður-Grænlandi hver sem niðurstaða þjóðaratkvæðisins verður. Naumur meirihluti þingsins samþykkti fyrir ári tillögu stjórnar Hammond um að afnema algert bann við vinnslu úrans. Í kosningabaráttunni hefur nýr formaður Siumut, Kim Kielsen, gert lítið úr mikilvægi úranvinnslu fyrir efnahag Grænlands.

Deilan um sjálfstæði hefur ekki verið í brennidepli í kosningabaráttunni, ólíkt síðustu kosningum þegar Hammond boðaði að Grænland gæti orðið sjálfstætt ríki innan 20 ára með því að nýta náttúruauðlindir sínar, m.a. verðmæta málma og olíulindir.

Grænland hefur fengið styrki frá Danmörku að andvirði 3,3 milljarða danskra króna (68 milljarða íslenskra) á ári. Talið er að Grænland verði háð fjárhagslegri aðstoð Dana í fyrirsjáanlegri framtíð þótt áform um námugröft gangi eftir, samkvæmt nýlegri skýrslu Efnahagsráðs Grænlands.

Fólksflótti úr dreifbýlinu

Rúmur helmingur landsframleiðslunnar á Grænlandi kemur frá opinbera geiranum og um 90% útflutningsins koma frá sjávarútveginum. Brýnt er að efla einkageirann og mikil umræða hefur verið um hvernig auka eigi fjölbreytnina í atvinnulífinu, minnka atvinnuleysið, sem er um 9-10%, og stemma stigu við fólksflótta úr dreifbýlinu. Íbúum Nuuk hefur fjölgað um 17,5% á síðustu tíu árum en íbúum flestra minni sveitarfélaga hefur fækkað. Meðalárstekjur íbúa Nuuk eru 292.000 d. krónur (6 millj. ísl.), en í þorpinu Qeqertat eru þær aðeins 83.000 d.kr. (1,7 millj. ísl.), svo dæmi sé tekið.

Margir hafa flust til annarra landa og margt ungt fólk, sem fer í nám erlendis, kemur ekki aftur heim.

Aleqa Hammond,
Aleqa Hammond, AFP
Frá kosningafundi í Nuuk
Frá kosningafundi í Nuuk AFP
Aggaluag B Egede og Sara Olsvig of
Aggaluag B Egede og Sara Olsvig of AFP
Kim Nielsen, starfandi formaður landsstjórnarinnar
Kim Nielsen, starfandi formaður landsstjórnarinnar AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert