37 milljónir fyrir ræðu og myndir

Clinton er vinsæll ræðumaður en margir bíða spenntir eftir því …
Clinton er vinsæll ræðumaður en margir bíða spenntir eftir því að hún uppjóstri hvort hún ætlar í forsetaframboð 2016 eður ei. AFP

Hvað kostar að fá Hillary Rodham Clinton til að halda erindi við ríkisrekinn háskóla í Bandaríkjunum? Gríðarlegan undirbúning, mikla fyrirhöfn og umtalsverða fjármuni.

Kaliforníuháskóli í Los Angeles greiddi Clinton 300.000 Bandaríkjadali, jafnvirði 37 milljóna íslenskra króna, fyrir stuttan fyrirlestur og myndatöku í mars 2014. Undirbúningur hófst strax eftir að hún lét af embætti sem utanríkisráðherra í febrúar 2013, en Washington Post hefur fengið aðgang að tölvupóstum sem fóru manna á milli þegar skipulagning stóð yfir og varpa ljósi á fyrirtækið í kringum að fá einstakling á borð við forsetaframbjóðandann fyrrverandi (og verðandi?) í heimsókn.

Gögnin sýna m.a. að umboðsmenn Clinton hjá umboðsskrifstofu Harry Walker höfðu mikið um það að segja hvernig heimsókn ráðherrans og forsetafrúarinnar fyrrverandi yrði háttað og höfðu afskipti af hinum ýmsu smáatriðum, báðu m.a. um að á sviðinu yrðu til reiðu vatn og sítrónubátar og að baksviðs yrði ný tölva og skanni, og að auki hummus og niðurskorið grænmeti.

Hátt settir starfsmenn UCLA áttu miklar samræður um stíl og lit hægindastólanna sem Clinton og fundarstjórinn sátu á þegar fyrrnefnda svaraði spurningum, auk þess að spá og spegúlera í hvers konar púðar ættu að vera til reiðu. Fulltrúar Clinton fóru fram á að í stólunum væru tveir rétthyrndir púðar, og að tveir púðar að auki yrðu til taks baksviðs, ef stólarnir reyndust of djúpir og Clinton vantaði meiri stuðning fyrir bakið.

Sérstakar óskir voru bornar fram um gerð af míkrafón og þá hafnaði Clinton-teymið ræðupúltinu sem til stóð að nota, fimm dögum fyrir viðburðinn, þannig að finna þurfti annað þóknanlegt í flýti og leigja nýtt innsiglismerki háskólans sem passaði við.

Það er óljóst að hversu miklu leyti Clinton tók þátt í skipulagningunni og hvort kröfurnar sem settar voru fram, voru frá henni komnar. Meðal þeirra voru að verðlaunapeningur, sem veita átti Clinton, yrði afhentur henni í öskju, en ekki hengdur um háls hennar.

Clinton gaf leyfi fyrir því að viðburðurinn yrði tekinn upp en aðeins til safngeymslu. Hún samþykkti að sitja fyrir á mynd með 100 VIP-gestum, þ.e. 50 pörum, og á tveimur hópmyndum en gerði þá kröfu að búið yrði að stilla hópunum upp áður en hún mætti á staðinn, þar sem henni mislíkar að þurfa að bíða eftir fólki.

Erindi Clinton var hluti af Luskin-fyrirlestrarröðinni, en fyrsta erindið í röðinni flutti eiginmaður hennar, fyrrverandi Bandaríkjaforseti Bill Clinton 2012. Hann fékk greidda 250.000 dali fyrir ómakið, minna en eiginkonan, eins og einn starfsmaður UCLA benti á í tölvupósti.

Umstangið og kostnaðurinn við heimsókn Clinton hefur verið gagnrýndur af sumum. Lögmaðurinn Charles McKenna, útskriftarnemi frá UCLA, sendi háskólanum m.a. póst þar sem hann lýsti yfir áhyggjum af því að skólinn væri að rukka áheyrendur um 250 dali fyrir að fá að hlýða á embættismann tala.

„Í raun er þetta kosningaviðburður, þar sem Clinton er óneitanlega að íhuga forsetaframboð 2016,“ segir í tölvupóstinum frá McKenna, en þar spurði hann m.a. hvers vegna ríkisrekinn háskóli rukkaði almenning fyrir að gefa Clinton tækifæri til að koma skilaboðum sínum á framfæri á áberandi vettvangi. McKenna hefur ekki fengið svör við fyrirspurn sinni.

Clinton heldur ræðu í New York í síðustu viku.
Clinton heldur ræðu í New York í síðustu viku. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert