Hætti að telja eftir 50 morð

Hjúkrunarfræðingurinn er grunaður um að hafa sprautað sjúklingana með hjartalyfinu …
Hjúkrunarfræðingurinn er grunaður um að hafa sprautað sjúklingana með hjartalyfinu Gilurytmal AFP

Þýskur hjúkrunarfræðingur á fertugsaldri, sem er sakaður um að hafa drepið þrjá sjúklinga og reynt að myrða tvo til viðbótar, er nú grunaður um að hafa drepið allt að 200 sjúklinga á nokkrum sjúkrahúsum í Þýskalandi. Þetta kemur fram í frétt á Aftenposten en blaðið vísar til fréttar Spiegel.

Réttarhöld yfir hjúkrunarfræðingnum hófust um miðjan september í Oldenburg en hann er sakaður um að hafa framið morðin á árunum 2003-2005.  Við réttarhöldin hafa komið fram nýjar vísbendingar sem benda til þess að hann hafi myrt mun fleiri en áður var talið en óeðlilega margir sjúklingar létust þegar hann var á vakt. Svo virðist sem hjúkrunarfræðingurinn hafi farið að stæra sig af morðunum í fangelsi og sagt að hann væri versti fjöldamorðingi Þýskalands frá stríðslokum.

Einn samfangi hans vitnaði um að hjúkrunarfræðingurinn hafi lýst því yfir að þegar hann hafi verið búinn að drepa 50 sjúklinga hafi hann hætt að telja.

Aftenposten

Spiegel

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert