Reyna að reka HIV smitaðan dreng úr þorpinu

Kínverskur drengur með HIV smit er einangraður í heimabæ sínum. …
Kínverskur drengur með HIV smit er einangraður í heimabæ sínum. Hann fær ekki að ganga í skóla og enginn vill leika við hann. AFP

Mikil reiði er meðal netverja í Kína vegna þeirra aðstæðna sem átta ára gamall drengur, sem er HIV smitaður, býr við í Sichuan héraði. Um 200 þorpsbúar hafa ritað undir beiðni um að hann verði rekinn úr þorpinu vegna smitsins.

Þetta er enn eitt málið sem kemur upp sem varpar ljósi á þær ömurlegu aðstæður sem fólk með HIV smit býr við í Kína. 

Afi drengsins og forráðamaður hans er einn þeirra sem ritaði undir bænaskjalið en þar er óskað eftir því að hann verði sendur úr þorpinu til þess að vernda heilsufar annarra þorpsbúa, að því er segir í frétt Global Times.

Blaðið, sem er með náin tengsl við Kommúnistaflokkinn, segir að drengurinn hafi smitast af HIV af móður sinni en hann var greindur árið 2011 þegar hann þurfti að leita læknishjálpar vegna minniháttar slyss.

Drengurinn hefur ekki fengið að ganga í skóla og þorpsbúar neita því að hafa samskipti við hann af ótta við að smitast. 

„Enginn leikur við mig, ég leik mér einn,“ segir drengurinn, sem nefnist Kunkun, í viðtali við fréttavef People's Daily. Þar kemur fram að í bænaskjalinu er Kunkun sagður vera tifandi tímasprengja.

Yfirmaður Kommúnistaflokksins í þorpinu, Shufangya, segir að þorpsbúar hafi samúð með honum enda sé hann saklaust lítið barn. En það að hann sé með HIV smit sé of hættulegt fyrir íbúana.

Móðir drengsins yfirgaf fjölskylduna árið 2006 en ekki er vitað meira hvar faðir hans heldur sig en hann lét sig hverfa þegar ljóst var að Kunkun væri með HIV.

Netverjar eru ekki sáttir við hvernig farið er með drenginn en á kínverska Twitternum, Sina Weibo, var Kunkun helsta umræðuefnið í dag. Flestir voru sammála um að það væri eiginlega ótrúlegt hver viðbrögð þorpsbúa væru og hversu kaldlynt fólk gæti verið.

Samkvæmt opinberum tölum í Kína hafa 497 þúsund manns greinst með HIV eða Aids frá því er fyrsta smitið var greint árið 1985.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert