FBI sakar N-Kóreu um tölvuárás

Bandaríska alríkislögreglan (FBI) segir að stjórnvöld í Norður-Kóreu beri ábyrgð á tölvuárás sem Sony Pictures varð fyrir vegna gamanmyndar sem fyrirtækið framleiddi sem fjallar um Kim Jong-un, leiðtoga N-Kóreu.

FBI segir að rannsókn á hugbúnaði sem var notaður í árásinni hafi sýnt fram á tengsl við Norður-Kóreu. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins. 

Sony hefur hætt við að frumsýna kvikmyndina The Interview í kjölfar hótana sem hafa borist frá tölvuþrjótum. Þeir höfðu m.a. komist yfir og birt viðkvæmar upplýsingar sem voru geymdar í tölvum Sony. 

CNN hefur eftir tölvuþrjótunum, að þeir fagni ákvörðun Sony um leið og þeir vara fyrirtækið við því að gefa út myndina á öðru formi. 

Margir listamenn eru æfir vegna ákvörðunar Sony. Leikarinn George Clooney er þeirrar skoðunar að gefa eigi út myndina á netinu. 

Þá hefur talsmaður Hvíta hússins í Washington sagt að árásin á Sony varði þjóðaröryggismál. Hann sagði ennfremur, að bandarískir embættismenn hefðu farið yfir málið og væru að íhuga viðbrögð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert