Öll fórnarlömbin úr sömu fjölskyldu

AFP

Allt bendir til þess að sjö af börnunum átta sem fundust látin á heimili í úthverfi borgarinnar Cairns í Queensland í Ástralíu í nótt séu systkini. Áttunda barnið er skylt þeim. Lögreglan biður alla þá sem hefur verið í sambandi við fjölskylduna undanfarna daga að hafa samband. Móðir barnanna sjö, sem er 34 ára gömul, var flutt á sjúkrahús með stungusár en lögregla verst allra frétta um hvernig börnin voru myrt og hvort einhver liggi undir grun um ódæðið. Börnin átta voru á aldrinum átján mánaða til fimmtán ára.

Forsætisráðherra Ástralíu, Tony Abbott, segir harmleikinn í Cairns átakanlegan en á sama tíma ríkir þjóðarsorg í Ástralíu vegna gíslatökunnar í Sydney á mánudag. Hann segir morðin í Cairns ólýsanlegan glæp.

Ungur maður, í einhverjum fjölmiðlum er hann sagður tvítugur bróðir barnanna sjö, hringdi í lögreglu eftir að hafa komið heim og fundið börnin látin. Lögreglan hefur ekki staðfest þetta en segir að það sé verið að ræða við tvítugan mann sem kom á vettvang þennan morgun sem börnin fundust látin.

„Við erum ekki að fara að nafngreina grunaða né heldur að veita upplýsingar um grunaða á þessum tímapunkti,“ segir yfirmaður lögreglunnar Bruno Asnicar.

Í gær var maður dæmdur í lífstíðarfangelsi í Melbourne fyrir að hafa kæft tvær dætur sínar, 3. og fjögurra ára gamlar. Að sögn dómarans vildi maðurinn hefna sín á fyrrverandi eiginkonu og barnsmóður.

Að sögn fréttamanns Cairns Post búa fjölmargir frumbyggjar í hverfinu og allir þeir sem búi í þessari götu séu tengdir blóðböndum á einhvern hátt. Hann segir að allir íbúar götunnar séu niðurbrotnir og þeir segi að móðirin hafi verið mjög stolt af börnum sínum og elskað þau mikið.

Átta börn fundust stungin til bana

Sky

NYT

Cairns Post

AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert