Húshjálpin fundin sek um morð

Við Akerbryggjuna í miðborg Osló.
Við Akerbryggjuna í miðborg Osló. mbl.is/Golli

Norsk kona á sjötugsaldri var í gær dæmd sek um morð á vinnuveitanda hennar, hinum 90 ára gamla Pål Stener Johannessen. Konan, sem er 62 ára gömul, vann hjá manninum sem húshjálp og átti von á að erfa 15 milljón norskar krónur frá honum, eða sem nemur tæpum 260 milljónum íslenskra króna.

Kom fram í dóminum að konan hefði farið úr íbúð mannsins eftir að hafa sinnt störfum sínum en komið aftur síðar sama dag. Læsti hún þau þá inni og kæfði hann í rúmi sínu, að öllum líkindum með kodda.

Konan hefur ávallt neitað sök og brotnaði niður að sögn vitna þegar áfrýjunardómstóllinn í Osló staðfesti 13 ára fangelsisdóm yfir henni.

Skömmu fyrir morðið hafði Johannessen snúist hugur og hugðist breyta erfðaskránni á þann veg að önnur húshjálp, 36 ára gömul kona fengi peningana í arf. Hefur hún nú fengið 15 milljón norskar krónur í arf frá Johannessen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert