„Þetta er harmleikur“

„Þetta ætti að vera tími gleðinnar, en þetta er harmleikur,“ segir faðir 14 ára stúlku sem var myrt í Ástralíu í gær ásamt sjö öðrum börnum. Móðir barnanna sjö er grunuð um morðin.

Faðir stúlkunnar hafði ferðast ásamt dóttur sinni frá Brisbane í Ástralíu til Cairns þar sem hann ætlaði að verja jólunum með ættingjum sínum. Dóttir hans var í heimsókn hjá frænku sinni þegar eitthvað varð til þess að frænka stúlkunnar og móðir barnanna sjö réðst á börnin og stakk þau til bana. Ekkert hefur enn verið gefið upp um tilefni morðanna.

Móðirin er 37 ára gömul. Hún átti sjö börn með fimm mönnum. Börnin voru tveggja ára, fimm ára, sex ára, átta ára, níu ára, ellefu ára og tólf ára. Frænka þeirra sem einnig lést var 14 ára.

Lögreglan í Queensland segir að móðirin hafi aðstoðað lögregluna við að upplýsa hvað gerðist. Hún var með stungusár þegar lögregla mætti á svæðið og hefur dvalist á sjúkrahúsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert