Ódauðleg mynd - með aðstoð Kims

Auglýsingaspjöld um kvikmyndina Viðtalið hafa verið tekin niður í Bandaríkjunum.
Auglýsingaspjöld um kvikmyndina Viðtalið hafa verið tekin niður í Bandaríkjunum. Michael THURSTON

Stjórnvöld í Bandaríkjunum segjast standa við fullyrðingar um að Norður-Kórea standi að baki tölvuárásum á útgáfufyrirtækið Sony í Bandaríkjunum. N-Kóreumenn segist hvergi hafa komið að málum og hafa boðist til að aðstoða Bandaríkjamenn við rannsókn málsins.

Tölvuþrjótar réðust inn í kerfi Sony og hótuðu hryðjuverkum ef sýnd yrði kvikmynd um morðtilraun við Kim Jong-un, leiðtoga N-Kóreu. Sony er gagnrýnt fyrir að láta undan. Talsmaður Sony segir að fyrirtækið sé nú að íhuga að sýna kvikmyndina „Viðtalið“ eftir öðrum leiðum, en myndina átti að frumsýna um jólin.

Sony í erfiðleikum

Útgáfufyrirtækið Sony hefur átt í vök að verjast um hríð, hlutabréfin hafa lækkað og í nóvember reið enn eitt áfallið yfir. Tölvuþrjótar birtu á netinu mörg þúsund viðkvæm innanbúðargögn, tölvuskeyti og annað, sumt af því var afar neyðarlegt fyrir fyrirtækið enda ekki ætlað fyrir almenning. Verra var að í gögnunum voru einnig persónulegar upplýsingar óbreyttra starfsmanna og segjast sumir þeirra nú íhuga málsókn. Sony hafi ekki gætt þess að verja gagnabanka sína nógu vel.

Ýmsir keppinautar og margir fjölmiðlar virtust varla geta leynt þórðargleði sinni yfir óförum Sony, þótt jafnframt væri þess auðvitað gætt að fordæma tölvuþrjótana.

Eins og oft áður er erfitt að fullyrða nokkuð um það hverjir hafi staðið fyrir innbrotinu í tölvukerfi Sony, svo auðvelt er að sögn kunnáttumanna að hylja sporin. Grunurinn beindist samt strax að Norður-Kóreumönnum vegna þess að fyrirtækið hugðist taka til almennra sýninga á jóladag Viðtalið, spennu- og gamanmynd um morðtilraun við Kim Jong-un, leiðtoga N-Kóreu. Bandarískir fjölmiðlar segja ónafngreinda fulltrúa alríkislögreglunnar, FBI, fullyrða að vísbendingar séu um aðild N-Kóreumanna. En hinir síðarnefndu vísa því á bug þótt þeir hafi fagnað „afreki“ tölvuþrjótanna.

Heimsbyggðin er nokkuð sammála um að Kim Jong-un og morðingjahyski hans eigi ekkert gott skilið. Annað mál er hve smekklegt það sé að gera mynd um morðtilraun við hann undir yfirskini viðtals og frumsýna hana á jóladag. Og Gæslumenn friðarins, eins og hakkarinn/hakkaragengið kallar sig (aðeins er vitað með vissu að gögn Sony voru birt með aðstoð tölvu á hótelherbergi í Taílandi, enginn kannast við neitt á staðnum) ákváðu að ganga lengra eftir að ráðamenn í Pjongjang höfðu kallað mynd Sony hryðjuverk.

„Munið 11. september 2001,“ sögðu þrjótarnir í tölvuskeytum fyrir nokkrum dögum, yrði myndin sýnd myndi „allur heimurinn fyllast ótta“. Ekki fór á milli mála að hótað var manndrápum í kvikmyndahúsum sem tækju myndina til sýningar. Flest þeirra hættu við að sýna myndina.

Yfirvöld vestanhafs sögðust að vísu ekki hafa séð neinar vísbendingar um að staðið yrði við þessar hótanir en Sony tók ekki áhættuna. Reyndar kom fram í tölvuskeytum sem hakkararnir birtu að yfirmenn Sony álitu myndina svo lélega að hún myndi ekki ná neinum vinsældum!

Ekki er víst að Kim Jong-un og félagar hans í Pjongjang líti málið þeim augum. Myndin gerir óspart gys að Kim, sagt er að hann eigi í miklum samræðum við höfrunga og leiðtoginn hafi þann undursamlega eiginleika að þurfa aldrei að fara á salernið.

Bannað að hlæja að Kim

Að sjálfsögðu er ekkert fjölmiðlafrelsi í N-Kóreu, allir fjölmiðlar tigna Kim sem guðlega veru. Suðurkóresk samtök, FFNK, sem berjast fyrir frelsi Norður-Kóreumanna, hafa oft sent loftbelgi með dvd-spilurum, útvarpstækjum og kvikmyndum með gagnrýni á stjórnvöld yfir landamærin. Diskum með Viðtalinu hefði að sögn leiðtoga FFNK verið komið í hendur almennings með þessum hætti, segir í Guardian. Og fátt er hættulegra fyrir einræðisherra en að láta hlæja að sér.

Sony, sem nú hefur hætt við að sýna myndina, hefur víða sætt fordæmingu fyrir að láta undan kröfum tölvuþrjótanna, tjáningarfrelsið hafi verið selt. En fyrirtækið getur vissulega bent á að það hafi verið í erfiðri stöðu. Hverjum hefði verið kennt um ef, þrátt fyrir allt, hryðjuverk hefði verið framið í einhverju kvikmyndahúsanna og saklaust fólk látið lífið? Hætt er við að Sony-menn hefðu fengið að vita að ábyrgðin væri að hluta til þeirra.

Hakkararnir hafa svínbeygt stórfyrirtækið með hótunum sínum. Og margir segja að friðkaupastefna Sony sé undanfari þess að enginn muni lengur þora að gera myndir sem ofbeldisseggir, t.d. IS í Sýrlandi og Írak, hóti að svara með hryðjuverkum. En myndin er ekki horfin og þegar hafa verið birt á netinu brot úr henni, vafalaust verður henni lekið allri með tímanum. Þá geta milljónir manna fengið tækifærið til að hlæja að Kim, milljónir sem varla hefðu ómakað sig í bíó til að sjá ómerkilega mynd sem búið er að gera ódauðlega.

Stjórnvöld í Washington taka árás hakkaranna á Sony mjög alvarlega og segja hana ógn við hagsmuni þjóðarinnar. Það sem einkum gerir mál af þessu tagi erfið er að þótt augljóslega sé oft um að ræða árásir sem í reynd er stýrt af ríkisstjórnum er nær útilokað að sanna það. Þannig gátu Rússar herjað á tölvukerfi Eistlendinga og Georgíumanna í deilum við þá fyrir nokkrum árum. Gagnrýni var svarað með því að um væri að ræða árásir sem vafalaust væru gerðar af hálfu stjórnarandstæðinga í Eistlandi og Georgíu.
Útgáfufyrirtækið Sony hefur átt í vök að verjast um hríð.
Útgáfufyrirtækið Sony hefur átt í vök að verjast um hríð. STR
Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, er ekki skemmt yfir bíómyndinni sem …
Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, er ekki skemmt yfir bíómyndinni sem Sony ætlaði að frumsýna um jólin. AFP
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert