Fórnarlamb nauðgunar í felum yfir jólin

Ched Evans
Ched Evans Wikipedia

Stúlka sem knattspyrnumaðurinn Ched Evans nauðgaði árið 2012 hefur þurft að skipta um nafn og flytja fimm sinnum vegna áreitis frá stuðningsmönnum Evans. Faðir hennar segir að hún hafi ekki getað eytt jólunum með fjölskyldunni eftir að hún var nafngreind á Twitter.

Evans var fangelsaður í apríl árið 2012 fyrir að hafa nauðgað stúlkunni á hótelherbergi í Rhyl í norðurhluta Wales. Hann neitaði sök en var engu að síður fundinn sekur fyrir dómi. Eftir að honum var sleppt úr fangelsi í október birti hann myndband á vefsíðu sinni þar sem hann hélt fram sakleysi sínu. Hét hann því jafnframt að hreinsa nafn sitt.

Í samtali við Mail on Sunday segir faðir stúlkunnar að hún hafi þurft að flytja fimm sinnum á síðustu þremur árum. Hún lifi í raun á flótta.

„Ég gat ekki einu sinni hitt hana um jólin af því að það er of áhættusamt fyrir hana að heimsækja mig. Ég veit ekki einu sinni hvar hún býr núna þannig að ég hef ekki getað gefið henni jólagjafirnar sem keypti handa henni,“ segir faðirinn.

Knattspyrnumaðurinn hefur leitað sér að nýju liði frá því að honum var sleppt úr fangelsi en það hefur gengið brösuglega. Hann reyndi fyrir sér hjá Sheffield United, sínu gamla liði, og Hartlepool United en það olli miklu fári hjá stuðningsmönnum og öðrum sem vildu ekki fá dæmdan nauðgara í sitt lið.

Frétt The Guardian af málinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert