Fundu bein þriggja ungbarna

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Kona í Massachusetts í Bandaríkjunum hefur verið ákærð fyrir tvö morð eftir að beinagrindur þriggja ungbarna fundust á niðurníddu heimili hennar. 

Konan er 31 árs og verður mál hennar tekið fyrir dóm í dag. Líkamsleifar barnanna fundust í september og var konan þá ákærð fyrir að fela fóstur. Hún neitaði sök og var sleppt gegn tryggingu. Í byrjun desember var hún svo ákærð fyrir tvö morð.

Í frétt AP-fréttastofunnar um málið segir að gríðarlegur sóðaskapur hafi verið á heimili konunnar. Húsið hafi verið undirlagt af skordýrum, rotnandi, dauðum dýrahræjum og notuðum barnableium. Þurfti hópur fólks að vinna í marga daga að því að hreinsa þar til eftir að líkamsleifar barnanna fundust. Húsið hefur nú verið jafnað við jörðu.

Lögmaður konunnar segir hana glíma við geðræn vandamál. Þá segir hann engin sönnunargögn til staðar um að konan hafi myrt börnin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert