Fimm hús kjarreldum að bráð

Að minnsta kosti fimm íbúðarhús hafa orðið kjarreldum að bráð í suðurhluta Ástralíu. Óttast er að eyðileggingin verði gríðarleg enda gengur slökkviliðsmönnum illa að hemja eldinn sem breiðist út á miklum hraða. Íbúar í nítján smábæjum Adelaide hæða hafa þurft að yfirgefa heimili sín.

Síðdegis í gær náðu kjarreldar yfir 154 hektara svæði en í dag hafa þeir breitt mikið úr sér og ná yfir 4.741 hektara. Sterkur vindur torveldir slökkvistarf og lítið annað hægt að gera en að bíða þar til vind lægir og rýma hús og bæi á meðan. „Þetta er afar ógnvænlegt,“ sagði Graeme Zucker sem yfirgaf heimili sitt í Kersbrook í gær og bíður þess að vita hvort það hafi orðið eldsmatur. „Maður gæti haft heppnina með sér en það kemur ekki í ljós fyrr en þeir opna fyrir umferð að nýju. Standi húsið enn getur maður tekið gleði sína á ný.“

Fjörutíu þúsund manns búa í Adelaide hæðum sem er meðal annars þekkt fyrir gjöfular vínekrur. Þær eins og íbúðarhús í hæðunum eru í hættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert