Lögregluaðgerð í Suður-Frakklandi

Frá aðgerðum lögreglu í Montpellier fyrr í mánuðinum. Myndin tengist …
Frá aðgerðum lögreglu í Montpellier fyrr í mánuðinum. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Að minnsta kosti fimm hafa verið handteknir í suður Frakklandi í aðgerðum lögreglu í morgun. Er fólkið grunað um skipulagningu hryðjuverka í landinu.

Aðgerðirnar áttu sér stað í smábænum Lunel, austan við Montpellier, en um tuttugu manns hafa yfirgefið borgina til þess að fara til Sýrlands síðustu misseri til að berjast með öfgahópum. Sex þeirra hafa látist síðan í október. Þau voru á aldrinum 18 til 30 ára.

Að sögn sjónarvotta hófu franskir sérsveitarmenn aðgerðirnar klukkan 6 í morgun að staðartíma í byggingu í miðbæ Lunel. „Nokkrir ómerktir bílar komu að húsinu. Menn með grímur komu út úr bílunum og lömdu niður hurðirnar að íbúðunum í húsinu,“ sagði einn íbúi hússins, sem sagði jafnframt að sérsveitarmennirnir hefðu hótað honum. 

„Þeir beindu byssu að höfðinu á mér. Á endanum handtóku þeir nágranna minn í íbúðinni fyrir ofan mig, Said,“ sagði vitnið. 

Annað vitni sagði að bróðir hans hefði verið handtekinn. „Þeir felldu mig, héldu mér á gólfinu og lömdu mig. Síðan tóku þeir bróður minn,“ sagði vitnið. 

Frönsk lögregluyfirvöld hafa áður sagt að Lunel sé „ráðningarmiðstöð“ fyrir þá sem vilja berjast með öfgamönnum úr röðum múslíma í Sýrlandi og Írak. 

Um 1.400 manns sem búa í Frakklandi hafa annaðhvort þegar farið til Sýrlands eða Íraks eða eru á leiðinni þangað, sagði forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls, fyrr í mánuðinum. 

Yfirvöld í Frakklandi hafa nú sett aukinn kraft í leit sína að mögulegum hryðjuverkamönnum í landinu eftir árásir í París fyrr í mánuðinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert