Indland og Bandaríkin „bestu félagar“

Obama í Nýju Delhi í dag.
Obama í Nýju Delhi í dag. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, sagði í dag að Bandaríkin gæti orðið „besti félagi“ Indlands, er hann lauk opinberri heimsókn í landinu.

Obama hefur verið í Nýju Delhi síðustu þrjá dagana.

„Indland og Bandaríkin eru ekki aðeins náttúrulegir félagar. Ég trúi því að Ameríka gæti verið besti félagi Indlands,“ sagði Obama í ræðu sinni.

„Auðvitað ráða aðeins Indverjar hlutverki Indlands í heiminum,“ bætti forsetinn við sem uppskar mikið lófaklapp eftir ræðu sína. 

„En ég er hér því ég er alveg sannfærður um það að báðar þjóðirnar munu hafa fleiri störf og tækifæri, þjóðirnar okkar verði öruggari og heimurinn jafnframt öruggari staður þegar lýðræðin okkar standa saman,“ sagði Obama. 

Sagði forsetinn jafnframt að mikilvægt væri að þróunarlönd eins og Indland minnkuðu traust sitt á jarðefnaeldsneyti. Sagði hann að heimurinn „ætti engan möguleika“ loftlagsbreytingum án ákveðinna breytinga. 

„Ég veit að sumum finnst það ósanngjarnt af löndum eins og Bandaríkjunum að biðja þróunarlönd eins og Indland um að minnka notkun ykkar á sama eldsneyti sem hjálpaði okkur í meira en öld,“ sagði forsetinn. 

„En hér kemur sannleikurinn:jafnvel er lönd eins og Bandaríkin minnki útblástur, ef lönd eins og Indland gera það ekki líka eigum við engan möguleika gegn loftlagsbreytingum.“

Í dag mun Obama ferðast til Sádi Arabíu til þess að hitta Salman, nýjan konung landsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert