Heiðarlegi dómarinn orðinn forseti

Dómarinn Sergio Mattarella frá Sikiley var kosinn forseti Ítalíu í dag. Mattarella er af mörgum álitinn táknmynd baráttu Ítala gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

Mattarella er 73 ára gamall. Hann naut stuðnings forsætisráðherrans Matteo Renzi og flokks hans, Lýðræðisflokksins, fyrir kosningarnar og tekur við af hinum gríðarvinsæla Giorgio Napolitano, sem leggur starfið á hilluna sökum aldurs. Mattarella er ekki þekktur meðal almennings en er afar virtur innan ítalskra stjórnmála. Á hann að baki 25 ára feril sem þingmaður og hefur verið í ráðherrastöðu oftar en einu sinni fyrir ríkistjórnir beggja megin við miðjuna. Hann er annálaður fyrir heiðarleika en hann hóf stjórnmálaferil sinn eftir að eldri bróðir hans var myrtur af mafíunni á Sikiley.

„Hugsanir mínar dvelja fyrst og fremst á erfiðleikum og vonum borgara okkar,“ sagði Mattarella í stuttri ræðu eftir að úrslitin voru ljós.

Úrslitin þykja pólitískur sigur fyrir Renzi sem lýsti yfir ánægju sinni á Twitter: „Vel að verki staðið, Mattarella forseti! Lengi lifi Ítalía!“ Fréttastofa AFP segir að með stuðningi sínum við Mattarella hafi Renzi sameinað Lýðræðisflokkinn en einnig sýnt fyrrum forsætisráðherra landsins, Silvio Berluscony, að hann sé ekki lengur eins mikilvægur og áður. Berluscony hafði beint því til sinna manna innan þingflokksins að styðja ekki Mattarella en boð hans var hunsað af yfirgnæfandi meirihluta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert