„Þetta lagafrumvarp er hneyksli“

Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings, og Lisa Murkowski …
Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings, og Lisa Murkowski öldungadeildarþingmaður ræða við fjölmiðla eftir samþykkt lagafrumvarpsins. EPA

Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti fyrir helgi lagafrumvarp um olíuleiðslu sem liggja mun þvert yfir Bandaríkin frá Kanada til Mexíkó og flytja 830 þúsund tunnur af olíu á dag. Lagning leiðslunnar, sem nefnd hefur verið Keystone XL, er mjög umdeild en Barack Obama Bandaríkjaforseti er henni andvígur og fyrir vikið er búist við að hann beiti neitunarvaldi gegn henni. Deilur hafa staðið um málið undanfarin fimm ár samkvæmt frétt bandaríska dagblaðsins New York Times. Þar spila inn í bæði umræður um umhverfisvernd og hefðbundin átök á milli repúblikana og demókrata.

Repúblikanar hafa meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings í kjölfar þingkosninganna í nóvember. Viðbúið er að til átaka komi fyrir vikið á milli þingsins og Obama sem er demókrati. Afgreiðsla öldungadeildarinnar á Keystone XL er þó enn verri fyrir forsetann í ljósi þess að níu þingmenn demókrata gerðu gengu í lið með repúblikönum í málinu. Atkvæði féllu 62 gegn 36. Hliðstætt lagafrumvarp var samþykkt af fulltrúadeild þingsins fyrr í þessum mánuði og skoða nú forystumenn hennar hvort frumvörpin verði sameinuð, sem þýddi að öldungadeildin þyrfti að afgreiða málið á nýjan leik, eða hvort frumvarp öldungadeildarinnar verði samþykkt óbreytt.

Hvor leiðin sem farin verður er gert ráð fyrir að lagafrumvarp um Keystone XL komi inn á borð hjá Obama og það jafnvel strax í næstu viku. Ólíklegt er þó talið að það takist að tryggja stuðning 2/3 hluta öldungadeildarinnar og fulltrúadeildarinnar við frumvarpið sem þýddi að forsetinn gæti ekki beitt neitunarvaldi. Sem fyrr segir er búist við að Obama beiti neitunarvaldinu. Einkum þar sem málið sé ekki að hans frumkvæði og þýddi að lokaákvörðun í því væri ekki á hans forræði. Repúblikanar hafa hótað því að beiti forsetinn neitunarvaldinu yrði málið tengt við eitthvert annað mál síðar á árinu sem yrði að samþykkja. Til dæmis varðandi útgjöld ríkisins eða lagafrumvarp um orkumál í víðara samhengi.

Þrýst á Obama að taka ákvörðun

Þrýstingur hefur farið vaxandi á Obama að taka endanlega ákvörðun í málinu sem hefur verið óafgreitt frá því að hann tók fyrst við sem forseti. Fyrir tæpum tveimur árum sagði hann að ákvörðun sín yrði byggð á því hvort lagning olíuleiðslunnar myndi hafa slæm áhrif á hlýnun jarðar. Samkvæmt skýrslu sem utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna gaf út á síðasta ári myndi lagning leiðslunnar ekki leiða til aukinnar hlýnunar vegna mengunar út í andrúmsloftið. Þegar skýrslan lá fyrir sagðist Obama ekki ætla að taka ákvörðun fyrr en dómstóll í Nebraska-ríki hefði fjallað um þá leið sem fyrirhugað er að leiðslan liggi um ríkið. Dómstóllinn lagði blessun sína yfir framkvæmdina fyrr í þessum mánuði.

Bandaríkjaforseti hefur að sama skapi sagt að hann vilji bíða eftir öllum umsögnum og skýrslum varðandi málið. Þau gögn eiga að liggja fyrir á mánudaginn. Bæði demókratar og repúblikanar hafa kallað eftir því að Obama tæki ákvörðun í málinu sem fyrst. Hugsanlegt er talið að sú ákvörðun verði tekin í febrúar. Haft er eftir repúblikananum John Hoeven, sem situr í öldungadeildinni fyrir Norður-Dakóta, í frétt New York Times að þverpólitískur stuðningur sé við málið og að öll ríkin sem olíuleiðslan eigi að liggja í gegnum hafi legt blessun sína yfir það. Meirihluti Bandaríkjamanna styðji lagningu leiðslunnar að sama skapi. Forsetinn verði að taka mið af því.

Umhverfisverndarsinnar eru sömuleiðis hlynntir því að Obama taki ákvörðun fljótlega. Haft er eftir Michael Brune framkvæmdastjóri samtakanna Sierra Club sem hvatt hafa forsetann til að hafna lagningu Keystone XL að ekki sé eftir neinu að bíða í þeim efnum þegar skýrslur og umsagnir í málinu liggi fyrir. Segist hann sannfærður um að forsetinn verði við óskum samtakanna. Vísar hann í ummæli nýleg ummæli Obama um að við ákvörðun sína muni hann vega áhrif lagningar olíuleiðslunnar saman við það hversu mörg störf framkvæmdin skapi. „Ég skal veðja við þig upp á hádegisverð að hann hafni málinu.“

Segja að olían færi annars til Kína

Forystumenn demókratar í öldungadeildinni hafa sakað repúblikana um að beygja sig fyrir kröfum kanadísks olíufélags í málinu. „Þetta lagafrumvarp er hneyksli,“ er haft eftir Barböru Boxer, öldungadeildarþingmanni demókrata fyrir Kaliforníu, á fréttavef bandaríska dagblaðsins Washington Times. Umhverfisverndarsinnar segja að málið sé lýsandi fyrir viljaleysi Bandaríkjanna til þess að horfast í augu við hlýnun jarðar. Þá segja andstæðingar olíuleiðslunnar að lagning hennar skapi aðeins störf til skamms tíma. Einungis nokkrir tugir fengju vinnu við að sinna viðhaldi hennar.

Stuðningsmenn olíuleiðslunnar segja að olíunni yrði dælt upp í Kanada hvort sem leiðslan yrði lögð eða ekki. Ef Bandaríkjamenn leggi ekki leiðsluna yrði olían einfaldlega flutt sjóleiðina til Kína eða eitthvert annað og útblásturinn í andrúmsloftið yrði hinn sami. Jákvætt sé ennfremur fyrir verðstöðugleika í Bandaríkjunum að olían verði um kyrrt í Norður-Ameríku. Það sé liður í því að gera landið minna háð olíu frá Miðausturlöndum.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. AFP
AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert