Faraldur kemur skottulæknum í sviðsljósið

Læknir gefur ungri stúlku bóluefni. Mislingafaraldur hefur geisað í nokkrum …
Læknir gefur ungri stúlku bóluefni. Mislingafaraldur hefur geisað í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna undanfarið. AFP

Fleiri mislingatilfelli höfðu greinst í Bandaríkjunum á þessu ári þegar janúarmánuður var ekki liðinn en á venjulegu ári. Faraldurinn hefur veitt skottulæknum sem meðal annars bera ábyrgð á fjölgun óbólusettra barna aukna athygli til að dreifa stoðlausum fullyrðingum um skaðsemi bóluefna.

Flest tilfellin má rekja til faraldurs sem kom upp í Disneyland í Flórída og öðrum skemmtigarði í Kaliforníu, samkvæmt upplýsingum sjúkdómavarnastofnunar landsins CDC. Faraldurinn hefur nú náð til fjórtán ríkja Bandaríkjanna og hafa 84 tilfelli greinst það sem af er þessu ári. Það er meira en heilbrigðisyfirvöld þar greina yfirleitt á heilu ári.

Anne Schuchat, yfirmaður bólusetninga- og öndunarfærasjúkdómadeildar CDC, hvatti foreldra til þess að láta bólusetja börnin sín til þess að koma í veg fyrir að sjúkdómar eins og mislingar næðu aftur fótfestu eftir að þeim hafði verið útrýmt um aldamótin.

Talar um „rétt“ barna til að smitast af sjúkdómum

Mislingatilfellum fjölgaði gríðarlega í Bandaríkjunum í fyrra. Þá greindust 644 tilfelli en þau höfðu mest farið í rúmlega 200 frá árinu 1996. Í kjölfarið hefur töluverð gagnrýni beinst að ýmsum samtökum, frægum einstaklingum og öðrum heilsukuklurum sem hafa barist gegn bólusetningum barna, meðal annars með stoðlausum fullyrðingum um að þær geti valdið einhverfu. Áróður þeirra hefur orðið til þess að nokkur fjöldi foreldra hefur annaðhvort sleppt því að bólusetja börnin sín við sjúkdómum eins og mislingum eða seinkað þeim.

Að minnsta kosti tveir skólar í Kaliforníu hafa brugðist við faraldrinum með því að meina óbólusettum börnum að mæta í skólann. Engu að síður hefur faraldurinn orðið vatn á myllu skottulækna eins og Jacks Wolfsons frá Arizona sem hafa fengið fjölmiðlaathygli fyrir andstöðu sína við bólusetningar. Hann er ekki sérfróður í bólusetningum eða smitsjúkdómum heldur hjartasérfræðingur sem hefur snúið sér að heilunarmeðferðum. Í miðjum faraldrinum sem hófst í Disney-skemmtigarðinum hefur hann hvatt til þess að fólk sniðgangi allar bólusetningar.

„Við ættum að fá mislinga, hettusótt, rauða hunda, hlaupabólu, það er réttur barnanna okkar að fá þá. Við þurfum ekki að sprauta okkur og börnin okkar með efnum til þess að bæta ónæmiskerfið okkar,“ segir Wolfson.

Geta haft alvarlegar aukaverkanir í för með sér

Mislingar geta hins vegar verið lífshættulegur sjúkdómur og eru bráðsmitandi. Óbólusett manneskja getur smitast af henni með því að anda að sér veirunni mörgum klukkustundum eftir að sýkt manneskja yfirgefur herbergið. Þeir geta haft alvarlegar aukaverkanir í för með sér eins og lungnabólgu, heilaskemmdir og heyrnarleysi. 

„Bóluefnið gegn mislingum er eitt skilvirkasta bóluefni sem við höfum yfir að ráða gegn nokkurri veiru eða örveru og það er öruggt, í fyrsta lagi. Í öðru lagi eru mislingar önnur tveggja mest smitandi veira sem við þekkjum,“ segir Anthony Fauci, framkvæmdastjóri Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunarinnar í Bandaríkjunum.

Grein Washington Post um mislingafaraldurinn í Bandaríkjunum

Grein Washington Post um lækni sem talar gegn bólusetningum í mislingafaraldri

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert