Japan vaknar upp við vondan draum

Morðin á Japönunum tveimur hafa skokið japanskt samfélag.
Morðin á Japönunum tveimur hafa skokið japanskt samfélag. EPA

Mikil reiði og sorg ríkir í Japan í kjölfar birtingar á myndbandi sem virðist sýna meðlimi Ríkis íslams afhöfða japanska gíslinn Kenjo Goto.

Forsætisráðherra landsins, Shinzo Abe, hefur lýst því yfir að Japan muni ekki gefa eftir gagnvart hryðjuverkamönnum og að hann hyggist auka stuðning við lönd sem berjast gegn þeirri vá en Ríki íslams segir slíkan stuðning Japana einmitt helstu ástæðu gíslatökunnar.

Annar japanskur gísl, Haruna Yukawa, virðist hafa verið myrtur fyrir innan við viku ef marka má myndbönd sem hryðjuverkasamtökin hafa sent frá sér.

Goto var 47 ára gamall og virtur fjölmiðlamaður, þekktur fyrir umfjallanir sínar um þjáningar stríðshrjáðra borgara. Hann ferðaðist til Sýrlands í október, að sögn til að reyna að frelsa Yukawa. Ekki hefur verið formlega staðfest að myndböndin sýni raunverulega atburði. Japönsk yfirvöld telja þó enga ástæðu til að ætla að svo sé ekki og hafa fordæmt morðin. Fleiri þjóðarleiðtogar hafa gert slíkt hið sama, meðal annarra Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, breski forsætisráðherrann David Cameron, forseti Frakklands, Francois Hollande, og Tony Abbot, forsætisráðherra Ástralíu.

Móðir Gotos, Junko Ishido, sagði blaðamönnum að dauði hans skildi hana eftir orðlausa og að hann hefði farið til Sýrlands vegna góðmennsku sinnar og hugrekkis. Bróðir Gotos, Junichi, sagðist hafa vonað að hann kæmi heill heim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert