Peter Greste sleppt úr haldi

Peter Greste.
Peter Greste. AFP

Ástralska blaðamanninum Peter Greste var í dag sleppt úr haldi eftir meira en fjögur hundruð daga í egypsku fangelsi. Greste var dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir að hafa stutt við Bræðralag múslíma, stjórnmálaflokk sem nú er skilgreindur sem hryðjuverkasamtök, í Egyptalandi.

Þrír blaðamenn voru upphaflega handteknir og dæmdir en ekki hefur fengist staðfest hvort hinum tveimur, Mohammed Fahmy og Baher Mohamed, verður einnig sleppt. Egypsk yfirvöld sögðu mennina hafa notað fjölmiðil sinn, Al-Jazeera, til að aðstoða Bræðralag múslíma.

Þeir Greste og Fahmy voru handteknir á hótelherbergi í Kaíró 29. desember 2013 eftir að húsleit var gerð í húsakynnum Al-Jazeera.

Greste starfaði áður hjá BBC og fékk meðal annars Peabody-verðlaunin árið 2011 fyrir heimildarmynd um Sómalíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert